Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bjarga aldagömlum álagakofa undan því að fara í sjóinn

14.06.2021 - 19:37
Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Mörg hundruð ára gamall álagakofi í Svefneyjum á Breiðafirði er nú tekinn niður og hlaðinn á nýjum stað vegna ágangs sjávar.

Ekki er vitað með vissu hve gamall Ranakofinn í Svefneyjum er. Hann var endurreistur 1768 eftir drukknun Eggerts Ólafssonar skálds og náttúrufræðings úr Svefneyjum, en víst er að hann var fyrst hlaðinn töluvert fyrr.

Magnús A. Sigurðsson, minjavörður á Vesturlandi og sunnanverðum Vestfjörðum segir að kofinn var notaður sem skemma fyrr á öldum.

„Algengt var að hafa þær við sjávarhamrana. Það blæs vel í gegnum hann. Hérna hefur líklega verið geymdur fiskur og annað, þetta hefur verið vörugeymsla eða þannig,“ segir Magnús. 

Álög talin hvíla á kofanum

Þau álög eru talin hvíla á Ranakofanum að eyðileggist hann þá verði Svefneyjar óbyggilegar, en særinn hefur sorfið landið undan kofanum og því var orðið tæpt að bjarga þessu eina elsta mannvirki Íslands undan að falla í hafið.  

Landrof ógnar menningarminjum víða um land og til varnar því að ranakofinn félli í tóft var ákveðið að taka hann niður og færa hann innar í landið. 

Að hverju þarf helst að huga þegar svona verk fer af stað? 

„Það sem skiptir einna mestu máli áður en byrjað er, er að skrásetja vel. Bæði sögu staðarins og eins að mynda vel og teikna upp og fara vel í gegnum hvernig handverk var notað hér á sínum tíma þegar kofinn var gerður hér á sínum tíma,“ segir Magnús. 

Unnsteinn Elíasson, grjóthleðslumaður, sér um verkið. 

„Við byrjuðum á því að rífa kofann mikið til. Þakið af og svo erum við að rífa steinana úr hleðslunum og byrjum svo bara að hlaða hann aftur upp hérna. Þessi hleðsla kallast grjót í streng, töluvert, svona nánast alla leið upp veggina en svo klömbruhleðsla efst,“ segir hann.

Torf í klömbruna þarf að skera upp á nýtt, en notast verður við sama grjót og tréverk við endurhleðsluna. 

Einstakt verkefni til að ráðast í

„Mér finnst alveg hreint magnað að hafa fengið að hjálpa til og bera grjót sem voru kannski sett niður árið átta hundruð, segja sumir að byggð byrji hér,“ segir Sigurbjörn Daði Dagbjartsson, Svefneyingur.  Hann er einn forsprakka verkefnisins sem sóttu fjármagn í húsafriðunarsjóð.

Magnús segir það sérstaka upplifun að sjá Ranakofann færðan.

„Það er ekki oft sem maður sér svona minjar í rauninni teknar niður og hlaðnar upp aftur, þannig það er gaman að fylgjast með því. Þetta eru sömu handverk, verkfærin aðeins öðruvísi, en þetta eru sömu handverk og fyrir þrjú, fjögur hundruð árum síðan.“ 

Fleiri álög eru á kofanum, en talið er að illa fari sé hann færður í einu lagi. Því verða veggirnir reistir í ár, en þakið á því næsta.

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV