Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Biden vill treysta böndin við NATO leiðtoga

epa09257331 US President Joe Biden (R) and first lady Jill Biden depart the White House heading to Europe, from the Ellipse in Washington, DC, USA, 09 June 2021.  EPA-EFE/Chris Kleponis / POOL
 Mynd: EPA
Joe Biden Bandaríkjaforseti stefnir að því að treysta böndin við leiðtoga NATO ríkjanna á fyrsta fundi sínum með þeim síðan hann tók við lyklavöldum í Hvíta húsinu. Fundurinn fer fram í Brussel í dag og þar verða fyrir hönd Íslands bæði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Meðal annars er stefnt að því að undirrita sameiginlega yfirlýsingu um brotthvarf Bandaríkjanna frá Afganistan, sameiginleg viðbrögð við tölvuárásum og aukin umsvif Kína á alþjóðavísu. Þá verður einnig rætt um samskipti við Rússa, afleiðingar loftslagsbreytinga og fleira.

Samskipti Bandaríkjanna og Nato hafa stirðnað undanfarin ár á meðan Donald Trump gegndi forsetaembætti, en hann dró gagnsemi þess að Bandaríkin verji Evrópubúa verulega í efa. Á seinasta fundi Trump með NATO leiðtogum fór hann fyrr heim en til stóð og gagnrýndi þá opinberlega.

Þó svo að Biden sé viljugri til að skapa sátt um sameiginleg málefni á milli ríkjanna og NATO þá eru óleystar ýmsar deilur, til að mynda um hvernig eigi að bregðast við og haga málum gagnvart Kína og standa straum af sameiginlegum kostnaði við samstarfið við NATO.  Aðildarríkin hafa áhyggjur af því að Bandaríkin hverfi og fljótt frá Afganistan. Bandaríkjamenn hafa verið með herlið í landinu allt frá því að þeir réðust þangað inn í kjölfar árásanna á tvíburarturnana í New York.

Aðildarríki Nato hafa kallað eftir og unnið að áætlunum um hvernig haldið verður aftur af skæruliðasveitum í landinu eftir brotthvarf herliðs Bandaríkjanna og Nato og hvernig öryggi sendiráða verður tryggt til að mynda. Samkvæmt AFP fréttastofunni er eitt af því sem verður rætt á fundi Biden með leiðtogum Nato ríkjanna sá möguleiki að herlið verði áfram á Kabul flugvelli. Þetta mun Biden ræða við Tayyip Erdogan, Tyrklandsforseta.