Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

1,2 milljarðar vegna sóttkvíarhótela - mest í leigu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkið þarf að greiða einn komma tvo milljarða króna vegna sóttkvíarhótela. Langstærsti útgaldaliðurinn er leigan á hótelunum eða níu hundruð milljónir króna. Rúmlega þrjú hundruð manns dvelja núna á sóttkvíarhótelum. Matur fyrir hótelgesti hefur kostað 164 milljónir króna.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Sjúkratrygginga Íslands við fyrirspurn fréttastofu RÚV. 

Kostnaður vegna sóttkvíarhótela var 614 milljónir króna í fyrra og hann er 628 milljónir það sem af er þessu ári. Samanlagt hefur því rúmlega einn komma tveir milljarðar króna komið í hlut ríkisins að greiða vegna sóttkvíarhótela. Í svari Sjúkratrygginga kemur fram að enn vanti þó talsvert af reikningum fyrir apríl og maí.

Kostnaðurinn er sundurliðaður. Leiga á hótelum er langdýrust. Þannig er kostnaður vegna gistingar rétt tæpar níu hundruð milljónir króna. Matur fyrir gesti er 164 milljónir og Rauði krossinn hefur fengið 157 milljónir króna. Þá kemur fram að ríkið þurfi einnig að greiða fyrir þrif þegar hótelrýmum verður skilað til eigenda sinna. 

Núna dvelja um þrjú hundruð og þrjátíu manns á sóttkvíarhóteli. Þar er einungis fólk sem þarf að vera í fimm daga sóttkví. Ákveðið hefur verið að sóttkvíarhótelin verði opin út júlí að minnsta kosti. Enn er það þannig að fólk þarf hvorki að greiða fyrir mat né gistingu. Að auki eru fimmtíu manns í farsóttarhúsinu við Rauðarárstíg. Þar er fólk sem er annað hvort með veiruna eða hefur verið í námunda við smitað fólk. 

Gylfi Þór Þorsteinson, forstöðumaður farsóttarhúsa, segir að alls hafi verið um sjö hundruð sýktir einstaklingar á sóttkvíarhótelunum og farsóttarhúsunum frá því faraldurinn braust út.