Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Úrskurðaður í varðhald vegna hnífstungunnar í nótt

13.06.2021 - 17:08
Héraðsdómur Reykjavíkur
 Mynd: RÚV
Rúmlega tvítugur karlmaður sem er grunaður um hnífstungu í miðbæ Reykjavíkur í nótt var nú síðdegis leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur og úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudags. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Maðurinn sem var stunginn liggur enn þungt haldinn á gjörgæslu og er í lífshættu. Hann er líka rúmlega tvítugur. Þeir eru báðir Íslendingar.

Árásin var gerð fyrir utan veitingastaðinn Fjallkonuna við Ingólfstorg. Þar brutust út átök milli nokkurra manna með þessum afleiðingum. Gerandans var leitað til klukkan tíu í morgun, þegar hann fannst í austurborginni.

Enn er til rannsóknar hvort bílbruni í Kópavogi um klukkan tvö í nótt tengist málinu.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV