Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tónlist innblásin af svefnlömun

Mynd: - / Mutant Joe

Tónlist innblásin af svefnlömun

13.06.2021 - 10:00

Höfundar

Þórður Ingi Jónsson fjallar um nýjustu plötu ástralska tónlistarmannsins Mutant Joe, Dream Corruptor eða Draumaspilli. Platan byggist á martraðakenndri reynslu tónlistarmannsins af svefnlömun.

Þórður Ingi Jónsson skrifar: 

Um það bil fimm prósent mannkyns upplifa reglulega það sem kallast svefnlömun eða sleep paralysis, þar sem líkaminn sefur á meðan heilinn er enn í fullu fjöri. Þetta er eitt af einkennum drómasýki, taugasjúkdóms sem veldur ýmsum svefntruflunum.

Margir upplifa einnig svokallaðar svefnhöfgaskynjanir, hypnagogic hallucinations á ensku, eins konar martraðir sem stafa samkvæmt þjóðtrúnni frá óvætti sem ræðst á sofandi fólk og sest á bringuna á því á meðan það sefur. Margir finna fyrir þyngslum fyrir brjósti og köfnunartilfinningu á meðan lömunin á sér stað og þaðan er nafnið martröð komið. Óvætturin nefnist mara og treður á fólki í svefni.

Við slógum á þráðinn til eins heitasta númersins í heimi neðanjarðardanstónlistar í dag, hins tvítuga Mutant Joe frá Brisbane í Ástralíu en hann var að gefa út plötuna Dream Corruptor eða Draumspilli, sem byggist á hans eigin reynslu af þessu sérkennilega fyrirbæri, svefnhöfgaskynjunum.

Joe segist upplifa þessar ofskynjanir reglulega, þar sem hann vaknar um miðja nótt kaldsveittur og sér ógnvekjandi sýnir eins og snáka og skuggaverur á sveimi í herberginu.

Móðir hans fær mjög svipaðar martraðir. Drómasýki er sögð arfgeng en hann telur þetta stafa af stressi og kvíða í hans tilviki.

Til að klára nýjustu plötu sína þá hélt Joe út í óbyggðir Ástralíu, í smábæinn Kunghur í Nýja Suður-Wales, þar sem frændi hans á land. Þar bjó hann við mjög frumstæðar aðstæður í litlum kofa án rennandi vatns og annarra þæginda, kom sér fyrir með fartölvuna sína og kláraði plötuna.

Hann segist neyta kannabisefna nokkuð reglulega til að bæla niður þessar svefntruflanir. Notkun efnanna virðist halda í skefjum þeim boðefnum heilans sem láta menn dreyma á nóttunni. Við seljum það ekki dýrara en við keyptum það. 

Í þessari ferð var hann hins vegar algjörlega edrú og án allra vímuefna, sem gerði þessar ofsjónir milli svefns og vöku enn ákafari og verri. Hugarástand hans og upplifanir settu því enn dýpri spor á plötuna en ella.

Flestir sem upplifa þessar undarlegu skynjanir verða sem lamaðir þó menn séu í eins konar vökuástandi. Joe kýs að kalla það sem hrjáir hann svefngeðsýki, þar sem hann lamast ekki líkamlega. Hann sér aðeins ofsjónir og það er um þessar ofsjónir sem nýja platan hans snýst.

Verstu ofsjónirnar sem hann upplifði í þessari ferð var eins og eitthvað úr hryllingsmyndinni The Exorcist. Hann hafi séð kvenkyns djöful kippast til og láta öllum illum látum við rúmgaflinn hjá sér. Sú sýn virtist honum miklu líkari raunveruleika en draumi.

Það merkilega við þessar upplifanir er að fólk víðs vegar um heiminn sér oft sömu hlutina; skuggaverur og kvenkyns djöflar, eins og Joe lýsir, eru algengar erkitýpur sem birtast fólki.

Heimildarmyndin The Nightmare frá árinu 2015 fjallar um þessi fyrirbæri

Joe segist stundum líka fá hljóðrænar ofskynjanir en tekur fram að þetta ástand eigi sér einungis stað þegar hann er milli svefns og vöku. Hann telur þetta vera tilfinningaleg eða líkamleg viðbrögð við stressi og kvíða. Mismunandi menningarheimar hafa síðan í gegnum tíðina talið slíkt einhvers konar andsetningu.

Til að breyta reynslu sinni í tónlist segist Joe hafa einbeitt sér að strengja- og orkestruhljóðum sem minntu á tónlist úr hryllingsmyndum. Gott dæmi er fyrsta lagið á plötu hans, Highway Gothic, sem hann sá fyrir sér og heyrði sem hljóð úr forgarði helvítis.

Svefngeðsýkin er að sögn Joes ekki jafn slæm þegar hann stundar líkamsrækt og lifir heilbrigðu lífi. Það helst þó í hendur við streitu. Þegar hann þarf að spila á tónleikum en þá verður hann eðlilega stressaður og ástandið versnar. Hann segir þó að hann sé orðinn það vanur þessu og að þetta hafi sem betur fer ekki djúpstæð áhrif á sálarlíf hans.