Vigdís Finnbogadóttir ræðir við Sjón, rithöfund, um mikilvægi skáldskapar og tungumálsins í viðtalsþætti sem sýndur er á RÚV á sunnudaginn klukkan 19:45. Þátturinn er þriðji af alls fjórum þáttum sem byggðir eru á viðtölum sem tekin voru við Vigdísi árið 2012.
Kynntist skáldskap í gegnum dönsk ævintýri
Vigdís segist fyrst hafa uppgötvað hvernig hægt væri að færa heillandi sögur í orð þegar móðir hennar las fyrir hana ævintýri danska rithöfundarins H. C. Andersens. Þá sátu þau systkinin í fangi móður sinnar þar sem hún þýddi fyrir þau orð fyrir orð.
„Þjóðin lifði á þessu, alltaf að segja sögur,“ segir Vigdís. Þá hafi fólk lifað af ískalda vetra með því að segja og skálda upp sögur fyrir hvert annað. „Þetta voru ekki neikvæðar sögur,“ segir Vigdís, heldur hafi þetta verið hetju-, álfa- og tröllasögur. „En þetta er allt saman mjög dramatískt.“
Gríðarleg skáldagáfa
„Útlendingar segja að við séum hjátrúarfull, með hindurvitni hér vaðandi uppi,“ en Vigdís telur Íslendinga búa yfir gríðarlegri skáldagáfu sem hefur blundað í þjóðinni í gegnum aldir. Dáist hún að þessari gáfu Íslendinga.
Vigdís segir mikilvægt að við varðveitum tungumálið okkar. En það gerum við best með því að læra líka önnur tungumál. „Þá skynjum við hve mikils virði það er,“ segir Vigdís, því þá áttum við okkur á hve mikilvægt það er að eiga lifandi tungumál. Telur hún einnig mikilsvert að geta þýtt erlendar bókmenntir yfir á okkar tungu og þannig fóðrað sagnaheiminn.
„Ég tala nú ekki um höfunda sem geta skrifað svona glæsilega á okkar tungumáli,“ segir Vigdís en nefnir þar engin nöfn.