Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Þetta á að vera í lagi og við eigum að geta treyst“

Mynd: RÚV / Skjáskot
Kona sem fór í skimun fyrir krabbameini í leghálsi í lok nóvember í fyrra hefur ekki enn fengið niðurstöður sýnatökunnar, en sýni hennar týndist og hún þurfti að fara aftur. Hún segir að nóg sé komið af því að leita blóraböggla, kominn sé tími til að byggja upp traust kvenna til skimana á nýjan leik.

Bryndís Þorsteinsdóttir fór í skimun fyrir leghálskrabbameini 27. nóvember í fyrra, en hún hefur áður greinst með krabbamein. Þegar hana var farið að lengja eftir svörum í byrjun mars hafði hún samband við Samhæfingarstöð krabbameinsskimana og fékk þau svör að taka þyrfti sýnið aftur og fór þá aftur í sýnatöku.

„Og þá fæ ég að heyra það að sýnið finnst ekki. Það vissi enginn hvar það var,“ segir Bryndís. 

Síðan þá hefur hún engar upplýsingar fengið um niðurstöður sýnatökunnar, en sýni hennar var, rétt eins og önnur sýni úr leghálsskimunum, sent til greiningar á sjúkrahúsinu í Hvidovre í Danmörku.

„Það vekur furðu mína að þetta skuli vera svona í dag vegna þess að fyrir mjög mörgum árum síðan, 15, 21 ári síðan greindist ég með krabbamein og það gekk allt frábærlega vel.“

Bryndís segist ekki vera eina konan sem er í þessum sporum.  Í Facebookhópnum Aðför að heilsu kvenna  hafi hún lesið margar áþekkar reynslusögur. 

„Þetta fjallar ekki um mig eða mína persónu; þetta fjallar um okkur konur,“ segir Bryndís. „Að þetta eigi ekki að gerast og þetta eigi ekki að koma fyrir neina konu. Það á enginn að vera í lausu eða frjálsu falli. Þetta á að vera í lagi og við eigum að geta treyst. Nú held ég að það sé komið að því að byggja upp traust kvenna til sýnatöku og skimanamála á Íslandi.“

En hvernig líður þér yfir því að hafa farið í sýnatöku fyrir meira en hálfu ári síðan og þú veist ekki enn þá niðurstöðuna?  „Ég er eiginlega mest hissa. Ég er einhvern veginn ekki hrædd, en það eru ekkert allar konur í mínum sporum sem væru ekki hræddar.“

Bryndís segist ekki vilja ásaka einn eða neinn fyrir hvernig komið sé. „Það er engin þörf fyrir það í dag. Þörfin er sú að við reynum að laga það sem er ekki í lagi og byggja þetta upp aftur þannig að traustið verði til staðar. Ekki að vera að finna einhvern blóraböggul, við græðum ekkert á því. Við þurfum að laga þetta, ekki í gær heldur í dag.“