Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Loftslagsbreytingar efstar á baugi G-7 á lokadegi

13.06.2021 - 06:10
epa09259913 British Prime Minister Boris Johnson (2-L), and US President Joe Biden (2-R), walk with US First Lady Jill Biden (R), and Carrie Johnson, wife of British prime minister Boris Johnson, during their bilateral meeting in Carbis Bay, Britain, on 10 June 2021. British Prime Minister Boris Johnson is meeting Joe Biden for the first time ahead of the Group of Seven summit that the UK is hosting.  EPA-EFE/Hollie Adams / POOL
 Mynd: EPA - RÚV
G-7 ríkin hyggjast leggja nýjar línur í loftslagsaðgerðum á lokadegi þriggja daga ráðstefnu sinnar í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem leiðtogar sjö stærstu iðnríkja heimsins mætast augliti til auglitis í vel á annað ár.

Búist er við því að löndin sjö fallist á að vernda að minnsta kosti 30 prósent bæði land og hafsvæða fyrir lok áratugsins. Er það gert til að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika og koma í veg fyrir að skaði eigi sér stað hvað varðar líffræðilegan fjölbreytileika úti í náttúrunni. Þá er stefnt að því að draga kolefnislosun saman um helming fyrir árið 2020 miðað við árið 2010. 

Í því felst að innleiða notkun á svokölluðum hreinum kolum til orkuvinnslu eins fljótt og auðið er og draga úr opinberum stuðningi við framleiðslu jarðefnaeldsneytis. Einnig á að minnka hlutdeild bensín og dísilbíla. 

Það eru Bretar sem bjóða heim að þessu sinni og hittast leiðtogarnir í Cornwall á suðvestanverðu Englandi. Boris Johnson sagði að ríkin vilji koma af stað alþjóðlegri grænni iðnbyltingu sem umbreytir lifnaðarháttum fólks. 
„Það er beint samband á milli þess að minnka losun, endurheimta náttúruna, skapa störf og tryggja langtíma efnahagslegan vöxt“ sagði Johnson.

Ekki eru allir á því að þessi loforð Johnson séu ný af nálinni eða nægilega beitt til að hafa næg áhrif.

„Þrátt fyrir fagurgræn fyrirheit, þá eru loforð hans aðeins upphituð gömul loforð sem eru krydduð með hræsni hans, í stað þess að grípa til raunverulegra aðgerða til að bregðast við loftslagsvánni og neyðarástandinu sem ríkir í náttúrunni,“ segir John Sauven, framkvæmdastjóri Greenpeace í Bretlandi. 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV