Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Kalt fram eftir viku

13.06.2021 - 13:33
Innlent · snjór · veður · Veðurstofan · Veður
Mynd: Helga Ólafsdóttir / Helga Ólafsdóttir
Seint verður sagt að sumarlegt sé um að lítast á landinu. Vetrarveður er víða um land og hefur nokkuð snjóað í byggð. 

Hiti er við frostmark á fjallvegum á norðan- og austanverðu landinu. Að sögn Óla Þórs Árnasonar, veðurfræðings á Veðurstofunni, er þess ekki að vænta að hiti fari yfir fimm gráður á Norður- og Austurlandi næstu vikuna.

Enn sem komið er úrkoman óvíða næg til að festast á vegum, en það gæti breyst síðar í dag.

„Það er viðbúið að það komi að þeim tímapunkti að vegirnir nái ekki að bræða snjóinn og krapi og snjór fari að myndast á fjallvegum,“ segir Óli Þór. Þá verði erfitt að vera á sumardekkjum á fjallvegum.

Þessu fengu gestir í Þakgili norðan Víkur í Mýrdal að kynnast í morgun en kalla þurfti út björgunarsveitir eftir að bílar festust í snjó á brattri leiðinni frá gilinu inn á þjóðveg.

Hlýrra loft um helgina

Framan af vikunni verður svalt á öllu landinu. Sem fyrr segir er ekki búist við meira en fimm gráða hita að degi til norðan- og austanlands, en hiti gæti þó náð tíu gráðum sunnan- og vestantil.

Undir helgi glittir þó í hlýrra loft. „En það er suðlæt og vætusamt svo það er spurning hvað menn vilja,“ segir Óli Þór Árnason.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV