Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Franska ríkissjónvarpsstöðin bönnuð í Alsír

13.06.2021 - 19:12
epa07716269 French Leclerc tanks drive down the Champs Elysees during the annual Bastille Day military parade on the Champs Elysees avenue in Paris, France, 14 July 2019. Bastille Day, the French National Day, is held annually on 14 July to commemorate the storming of the Bastille fortress in 1789.  EPA-EFE/IAN LANGSDON
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnvöld í Norður-Afríkuríkinu Alsír hafa afturkallað sjónvarpsleyfi frönsku ríkissjónvarpsstöðvarinnar France 24, degi eftir að þingkosningar fóru fram í landinu, þar sem 70% kjósenda sátu heima.

Alsírska fjarskiptaráðuneytið greinir frá ákvörðuninni og segir ástæðuna „augljósan og stöðugan fjandskap“ sjónvarpsstöðvarinnar í garð alsírska ríkisins og stofnana þess.

Stjórnvöld veittu stöðinni lokaáminningu 13. mars vegna umfjöllunar hennar um vikuleg föstudagsmótmæli sem hreyfing stjórnarandstæðinga, Hirak, hefur staðið fyrir með hléum frá 2018.

France 24 er alþjóðleg sjónvarpsstöð sem send er út á frönsku, spænsku, arabísku og spænsku. Í yfirlýsingu lýsir stöðin furðu yfir ákvörðuninni og fjallað sé um fréttir frá Alsír með „gagnsæjum, sjálfstæðum og heiðarlegum hætti“.

Fjölmiðlafrelsi ábótavant

Frönsk stjórnvöld hafa ekki tjáð sig um málið enn sem komið er, en samband stjórnvalda í ríkjunum er nokkuð stirt um þessar mundir. Alsír var nýlenda Frakklands allt frá árinu 1830 þar til landið öðlaðist sjálfstæði í kjölfar Alsírstríðsins 1962.

Starfsumhverfi blaðamanna, innlendra sem erlendra, er ekki upp á marga fiska í Alsír. Þeir oft upp á náð og miskunn embættismanna, og þurfa að beygja sig undir ákvarðanir þeirra án þess að ljóst sé hvað liggur þeim til grundvallar.

Í skýrslu Blaðamanna án landamæra (RSF) frá í fyrra situr landið í 146. sæti af 180 ríkjum yfir fjölmiðlafrelsi og hefur landið fallið um 27 sæti frá árinu 2015.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV