Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ferlega krúttlegt farsóttarsjónvarpsefni

Mynd: Sweet Tooth / Netflix

Ferlega krúttlegt farsóttarsjónvarpsefni

13.06.2021 - 09:00

Höfundar

Sjónvarpsrýnir Lestarinnar á Rás 1 lét gabba sig enn eina ferðina og horfði á nýja farsóttarþætti Netflix sem nefnast Sweet Tooth. Þættirnir segja frá samfélagi sem hefur að mestu þurrkast út vegna faraldurs en samhliða uppgangi hans fæðast öll börn sem blendingar af mönnum og dýrum.

Katrín Guðmundsdóttir skrifar:

Síðastliðið ár og hálft hef ég horft á óvenju margar þáttaraðir um fólk sem lifir af í samfélagi sem hefur að mestu þurrkast út vegna veiru sem veldur banvænum sjúkdómi, til að mynda The Stand, sem sýndir voru í Sjónvarpi Símans fyrr í vetur, og rússnesku Netflix-seríuna To the Lake. Engin þessara þáttaraða skildi neitt eftir sig og eftir því sem ég horfði á fleiri urðu þær tilbreytingarlausari og formúla þeirra fyrirsjáanlegri. Eins og ég væri alltaf að horfa á sömu þættina aftur og aftur. Mögulega hefur farsóttarþreytan haft einhver áhrif á þessa lýjandi upplifun því nú þegar farið er að sjá fyrir endann á faraldrinum glotti ég við tönn þegar Sweet Tooth, átta þátta sería á snærum Netflix, poppaði upp í streymisveitunni síðasta föstudag. Ekki séns að ég myndi láta plata mig enn eina ferðina, hvað þá á lokametrunum! En einhvern veginn sit ég hér sólarhring síðar og hef skrif um þessa nýju veiruþætti.

Þar sem ég var ekki með neinar væntingar til Sweet Tooth get ég ekki sagt að ég hafi orðið fyrir neinum vonbrigðum við áhorfið. Þættirnir segja jú frá samfélagi sem hefur að mestu þurrkast út vegna veiru sem veldur banvænum sjúkdómi en samhliða uppgangi hans fæðast öll börn sem einhvers konar blendingar af mönnum og dýrum. Þessir blendingar eru ónæmir fyrir sjúkdómnum og er það trú margra eftirlifenda að móðir náttúra hafi loks gripið í taumana og útrýmt mannkyninu eins og við þekkjum það. Græðgi og eigingirni tegundarinnar hafi því sem næst eyðilagt jörðina og því séu sjálfbærir eiginleikar nýju kynslóðarinnar til þess fallnir að hún geti lifað í sátt og samlyndi við náttúruna. Þó eru ekki allir eftirlifandi menn þessarar skoðunar og sem viðbragð við hinu andstæða sprettur upp öfgafull hreyfing sem keppist við að finna lækningu við sjúkdómnum og útrýma um leið öllum blendingum. Hinn níu ára gamli Gus er einn af þessum blendingum, nánar tiltekið mjög krúttleg blanda af dreng og dádýri, og hann hefur lifað í felum með föður sínum allt sitt líf, án þess þó að vita sjálfur almennilega af hverju. Þegar Gus ákveður skyndilega að leggja land undir fót og leita uppi móður sína hefur hann því mikla hættuför sem verður til þess að hann eignast fjölmarga óvini sem vilja koma honum fyrir kattarnef en líka nokkra dýrmæta vini sem eru tilbúnir að leggja líf sitt í hættu við að hjálpa honum á áfangastað.

Framangreint er algjörlega eftir formúlunni: Söguhetja ferðast landshorna á milli til þess að tilheyra einhverju eða einhverjum og horfist í augu við að fólkið í samfélaginu er ekki síður hættulegt en sjúkdómurinn sem skekur það. Sweeth Tooth eru því ekki sérlega frumlegir þættir og hvað söguþráð varðar eru þeir nákvæmlega eins og allir hinir veiruþættirnir, jafnvel þótt þeir splæsi saman börnum og dýrum á krúttlegan hátt. Þeir sækja aftur á móti ákveðna sérstöðu í vandaða framleiðslu og víðan markhóp sem tryggir þeim að öllum líkindum talsverðar vinsældir á komandi vikum og mánuðum. Það er eiginlega með ólíkindum hvernig fyrsta mínúta í fyrsta þætti getur gefið tóninn fyrir heila þáttaröð, bæði sem heildstætt listaverk og fullmótaða markaðsvöru. Í þessu tilfelli er það hinn djúpraddaði Josh Brolin sem ljær sögumanni rödd sína á gamla mátann. Föðurlegir tilburðir hans gefa okkur umsvifalaust tilfinningu fyrir því að hér sé á ferðinni veglegt ævintýri fyrir alla fjölskylduna, sem staðfestist svo nokkru síðar þegar fjölskrúðug litapalletta afhjúpast í draumkenndri náttúrulýsingu undir þjóðlagatónum okkar eigin Of Monsters and Men.

Viðfangsefnið, siðrof í veirusjúku samfélagi, er sannarlega skuggalegt en eins og covid hefur kennt okkur geta skuggalegir hlutir alveg átt erindi við börnin okkar og oftast eru það líka börnin sem minna okkur á ljósu hliðarnar og draga þær enn fremur fram þegar myrkrið virðist takmarkalaust. Þessi togstreita ljóss og myrkurs, góðs og ills og nýs og gamals er jafnframt undirliggjandi í nokkrum þráðum sem fléttast inn í atburðarás Sweet Tooth. Sá skýrasti er sennilega loftslagsváin, sem birtist í kynslóðabilinu milli unga fólksins og hinna fullorðnu. Einkum dýrahersins, það er að segja hópi ungmenna sem tekið hafa þá miklu ábyrgð að vernda alla blendinga fyrir „síðustu mönnunum”, öfgahreyfingunni sem neitar að horfast í augu við tortíminguna sem neysla þeirra á að hafa valdið. Eins er snert á siðferðisvitund manneskjunnar gagnvart dýrum og meðvitaðri ómeðvitund okkar þegar kemur að kerfisbundinni misnotkun á öðrum tegundum í eigin þágu hvort sem um er að ræða meintar nauðsynjar á borð við kjötiðnað og snyrtivöruframleiðslu eða lúxusinn sem felst í loðdýrarækt og dýragarðsferðum. Hversu langt er maður tilbúinn að ganga á aðra til að viðhalda sjálfum sér og þeim sem maður elskar er spurning sem brennur á vörum höfundanna og á það ekki síst við þriðja og síðasta þráðinn, trú mannsins á vísindin á kostnað náttúrunnar og öfugt.

Nú þegar þetta veiruþáttatímabil mitt er vonandi á enda komið velti ég því fyrir mér hvað liggur að baki þessu vinsæla sjónvarpsefni? Hverju veltir það upp í raun og veru? Vissulega hefur það verið okkur óvenju hugleikið síðasta hálfa annað árið en hugmyndirnar hljóta að ná lengra út fyrir tengslin við kórónuveiruna, enda var framleiðsla hafin á þeim flestum löngu fyrir upphaf faraldursins. Mögulega eru þættirnir viðbrögð við óvissunni sem fylgir hraðri framþróun í erfðatækni og ógninni sem stafar af mannlegum eiginleikum vísindafólksins sem leiðir hana. Mér finnst óttinn við eyðileggingu internetsins og áhyggjur af samfélagslegri upplausn sem afleiðingu þess hins vegar meira spennandi viðfangsefni, einkum í ljósi þess hversu ríkjandi vettvangur internetið hefur orðið fyrir siðferðilegt aðhald og jafnvel innrætingu á síðustu árum. Líkt og siðgæði okkar sé hratt og örugglega að samtvinnast þeim straumum og stefnum sem ganga yfir samfélagsmiðla hverju sinni. Eflaust er eitthvað meira í þessa veiruþætti spunnið en útvötnuð formúla þeirra gefur til kynna. Sweet Tooth er kannski ekki frumlegasta þáttaröð í heimi en hún er falleg og ferlega krúttleg hugvekja sem er tilvalið að kveðja kórónuveirufaraldurinn með.

 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Sameiginleg áfallastreituröskun svartra Bandaríkjamanna

Sjónvarp

Brothættur og blákaldur raunveruleiki í Systraböndum

Sjónvarp

Exit 2: ekki bara fleiri bílar, typpi og kókaínlínur

Sjónvarp

Mannlegur samhljómur yfirgnæfir formúlurnar