Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Björgunarsveitir aðstoðuðu gesti í Þakgili

13.06.2021 - 08:14
Mynd með færslu
 Mynd: Helga Ólafsdóttir
Björgunarsveitir voru kallaðar út að tjaldsvæðinu Þakgili norðan Víkur í Mýrdal í morgun til að aðstoða hóp ferðamanna sem hafði fest bíla sína á leið frá gilinu inn á þjóðveg.

Helga Ólafsdóttir, eigandi gistisvæðisins, segist aldrei hafa lent í öðru eins, en um tíu sentimetra nýfallinn snjór er á svæðinu.

Á annan tug gesta eru á svæðinu, en Helga var vakin í morgun með þeim fréttum að nokkrir gestir hefðu fest bílana á leið sinni frá svæðinu og eru björgunarsveitir komnar á vettvang.

Í Þakgili er aðeins opið yfir sumartímann, frá 1. júní fram í miðjan september, enda ekki fært um brattar brekkurnar milli gilsins og þjóðvegar að vetrarlagi nema á vel útbúnum bílum.

Helga segir lítið annað að gera en að bíða þess að snjórinn bráðni, og á hún ekki von á öðru en það gerist þegar líður á daginn.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV