Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stjórn Orbans sækir enn að réttindum hinseginfólks

epa07012558 Hungarian Prime Minister Viktor Orban arrives in the plenary session at the European Parliament in Strasbourg, France, 11 September 2018. In the afternoon, the European Parliament is debating a report by Greens MP Judith Sargentini. Among
 Mynd: EPA
Ríkisstjórn Viktors Orbans og flokks hans í Ungverjalandi hefur lagt fram frumvarp til laga, sem bannar allt það sem „ýtir undir samkynhneigð“ eins og þar stendur. Amnesty International, samtök hinseginfólks og fleiri mannréttindasamtök fordæma löggjöfina og segja að með henni sé gróflega vegið að réttindum samkynhneigðra og ungs fólks yfirhöfuð.

Þetta verður ekki fyrsta löggjöfin sem stjórn Orbans leggur fram til að skerða réttindi hinseginfólks í Ungverjalandi. Á síðasta ári samþykkti ungverska þingið lög sem banna samkynhneigðum að ættleiða börn og önnur sem banna fólki að breyta skráningu á kyni sínu í opinberum gögnum.

Hluti af löggjöf gegn barnaníði

Nýju lögin eru víðtækari og lögð fram sem hluti af umfangsmeiri löggjöf sem opinberlega er beint gegn barnaníði. Gagnrýnendur segja að með því sé ýjað að því að samkynhneigð og barnaníð fari á einhvern hátt saman. Það sé í senn rangt og til þess fallið að ala enn á fordómum og hatri í garð hinseginfólks.

Í þeim hluta frumvarpsins sem lýtur að samkynhneigð er lagt blátt bann við hvers kyns klámfengnu efni og „lýsandi myndum“ sem beint er að ungu fólki og með einhverju móti getur ýtt undir eða hvatt til kynleiðréttingaraðgerða og/eða samkynhneigðar, án þess að það sé skilgreint nánar. 

Mannréttindasamtök mótmæla

Amnesty International, Budapest Pride og fleiri mannréttindasamtök hafa mótmælt frumvarpinu. Samtök hinseginfólks segja deginum ljósara að orðalagið sé haft nógu loðið til að hægt sé að kæra og fangelsa fyrir það eitt að dreifa fræðsluefni um starfsemi þeirra og samkynhneigð og kynsegin málefni yfirleitt.

Amnesty leggur löggjöfina að jöfnu við lög sem innleidd voru í Rússlandi 2013 og banna „hinsegin áróður“ sem beint er að börnum, að viðlagðri fangelsisrefsingu. Í umsögn um frumvarpið segir Amnesty að verði frumvarpið að lögum séu réttindi og tjáningarfrelsi ungs fólks í Ungverjalandi skert verulega. Saka samtökin ungversk stjórnvöld um að stunda gerræðislega stjórnarhætti sem ekki samræmast gildum Evrópusambandsins og Evrópuráðsins.