Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Síðasti þingfundur Steingríms: „Ég kveð sáttur“

12.06.2021 - 21:27
Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Steingrímur J. Sigfússon þingmaður Vinstri grænna og forseti Alþingis hættir á Alþingi í haust og þingfundurinn í kvöld er væntanlega sá síðasti á hans ferli sem spannar hátt í 40 ár.

 

Steingrímur hefur þegar lýst því yfir að hann sækist ekki eftir endurkjöri komandi kosningum. Hann settist fyrst á Alþingi árið 1983 og hefur því verið á þingi í 38 ár.

„Ég er bara fullur af kátínu og tilhlökkun að fara að takast á við önnur verkefni. En reyndar verð ég nú forseti og með þær skyldur á herðum fram á haust þannig að ég er nú ekki að fara langt í bili,“ segir Steingrímur.

Heldurðu að þú munir ekki sakna stjórnmálanna?

„Ég mun sakna Alþingis sem vinnustaðar. Fólksins hér, félagsskaparins. En ég kveð það alveg sáttur. Svo verður bara að koma í ljós hvort ég fæ einhver eftirköst af því að vera hættur í pólitík. En ég er búinn að einsetja mér það að þegar ég er hættur þá er ég hættur. Ég ætla ekki að vera að skipta mér af því sem ég á ekki lengur að gera. Ekki vera fyrir þeim sem taka við keflinu. En ég er ekki að fara langt. Ég er og verð áfram Vinstri grænn og mun vinna með í þeirri hreyfingu en nú verð ég baksviðs ekki fremst á sviðinu,“ segir Steingrímur.

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV