Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Ráðherra ber ábyrgð á hættulegu ástandi“

Mynd: RÚV / Skjáskot
Sérfræðiþekking var virt að vettugi þegar ákveðið var að ráðast í breytingar á framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi. Þetta segir varaformaður læknaráðs Landspítala. Hann segir að ábyrgðin liggi hjá heilbrigðisráðherra og æðstu stjórnendum heilbrigðiskerfisins.

Ákvörðun heilbrigðisráðherra um að flytja sýni úr skimunum við krabbameini í leghálsi frá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins um síðustu áramót á danskt sjúkrahús til greiningar hefur verið víða gagnrýnd, bæði af sérfræðingum og almenningi.

Í gær var birt skýrsla sem heilbrigðisráðherra lét vinna um framkvæmdina og þar kemur fram að óljós svör Landspítala um hvort hann gæti tekið að sér greiningarnar hafi orðið til þess að samið var um þær við danska sjúkrahúsið. Gunnar Bjarni Ragnarsson krabbameinslæknir og varaformaður Læknaráðs Landspítala segir þetta ekki rétt. Ábyrgðin liggi hjá ráðherra og æðstu stjórnendum heilbrigðiskerfisins og ferlið hafi verið sérlega illa undirbúið.

„Þetta var ákveðið í mars 2019 og í rauninni ekki farið af stað af alvöru fyrr en Krabbameinsfélagið minnist á þetta í júní 2020,“ segir Gunnar Bjarni.

Hann segir ófyrirgefanlegt að fyrirvarinn hafi verið svo stuttur. Ferlið hafi verið flausturslegt í alla staði og einkennst af því að ráð fagfólks hafa verið hunsuð, þeim sýnd vanvirðing.

„Þetta einkenndist af algjörum skorti á framtíðarsýn sem ég held að gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar,“ segir GunnarBjarni.

Er verið að stofna heilsu kvenna í hættu? „Já, ég hef áður sagt að þetta sé aðför að heilsu kvenna og við stöndum við þau orð. Heilbrigðisráðhera ber ábyrgð á þessu hættulega ástandi.“

Krabbameinsfélag Íslands sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem segir að rangfærslur séu í skýrslunni hvað varði starfsemi félagsins og að hún varpi skýru ljósi á hversu flutningnum var ábótavant.