Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Mörgum stjórnarmálum fórnað til að ná samkomulagi

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Forystumenn þingflokka náðu samkomulagi í gærkvöld um afgreiðslu mála og þinglok. Búist er við að Alþingi ljúki störfum seint í kvöld en stefnt er að því að afgreiða um fjörutíu mál. Þingflokksformaður Sjálfstæðismanna segir að mörgum málum hafi verið ýtt út af borðinu til að ná samkomulagi.

Þingfundur hófst klukkan tíu í morgun með umræðu um frumvarp umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð. Þegar liggur fyrir að því máli verður vísað aftur ríkisstjórnar og ráðherra. Þrjátíu mál er nú á dagskrá þingfundar en viðbúið er að málum fjölgi þegar líður á daginn.

„Þetta samkomulag felur í grundvallaratriðum í sér að langflest af þeim stjórnarfrumvörpum sem höfðu verið afgreidd út úr nefndum verða kláruð. Það eru einhverjir tugir mála sem þar eru undir. Það var samið um það að þrjú mál yrðu sett til hliðar hvert með sínum hætti. Innflytjendafrumvarp félagsmálaráðherra, mál heilbrigðisráðherra um réttindi sjúklinga sem snertir þvingunaraðgerðir og síðan, eins og menn voru búnir að segja, þá verður hálendisþjóðgarðinum vísað til ríkisstjórnarinnar,“ segir Birgir Ármannsson formaður þingflokks Sjálfstæðismanna.

Búist er við að um fjörutíu mál verði afgreidd áður þingfundi lýkur. Ólíklegt þykir að þingið komi aftur saman á þessu kjörtímabili. Í starfsáætlun var gert ráð fyrir þingstubbi í lok sumars ef stjórnarskrárbreytingar kæmu á dagskrá en úr því varð ekki.

Birgir segir að stjórnarflokkarnir hafi þurft að ýta mörgum málum út af borðinu til að ná samkomulagi um þinglok.

„Auðvitað var það þannig að ríkisstjórnin var með mun fleiri mál í gangi. Þar á meðal eru mál sem búið er að vinna mikið í í vetur og í sjálfu sér hefði verið æskilegt að koma í gegn en hins vegar er ljóst að á lokadögum þingsins er ekki hægt að koma í öllu í gegn. Þannig að samkomulagið miðaðist auðvitað við það að allir urðu að gefa eitthvað eftir,“ segir Birgir.

Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Miðflokksins segist sáttur við það samkomulag sem nú liggur fyrir.

„Það eru mörg stórmál ríkisstjórnarinnar sem að þurfa nú að bíða. Umdeild mál og mál sem við höfum talið að þyrfti að vinna betur. Og höfum helst viljað koma aftur til ríkisstjórnarinnar. Þessi mál komast ekki á dagskrá og verða ekki afgreidd. Síðan er búið að lágmarka skaðann af öðrum málum eins og til dæmis þessu þjóðgarðsmáli sem er kannski stóra málið,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson. 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV