Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Krefur ráðherra skýringa vegna örorkumats

12.06.2021 - 10:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Umboðsmaður Alþingis hefur krafið Ásmund Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, skýringa á því að umsóknum um örorkulífeyri, sér í lagi frá ungu fólki, sé í auknum mæli synjað á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd.

Í bréfi Umboðsmanns til ráðherra segir að embættinu hafi borist fjöldi kvartana og ábendinga og Umboðsmaður spyr hvort ráðherra sé meðvitaður um að afgreiðsla umsókna um örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun hafi mögulega breyst. Dæmi séu um að Tryggingastofnun synji umsóknum um örorkulífeyri því endurhæfing sé ekki fullreynd, jafnvel þó fyrir liggi álit sérfræðilækna, um að frekari endurhæfing muni ekki skila árangri.

Á vef Öryrkjabandalagsins segir að bandalagið hafi lengi reynt að vekja athygli ráðherra á breyttu verklagi og erindi Umboðsmanns fagnað. Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, segir ótrúlegt að ungmenni með umönnunarmat vegna margþættra fatlana skuli við 18 ára aldur fá synjun á örorkumati, því endurhæfing breyti ekki fötlun þessara einstaklinga. Umboðsmaður óskar eftir að svör frá ráðherra berist eigi síðar en 28. júní. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV