Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Jákvæðar og vel heppnaðar kosningar“ í Perú

12.06.2021 - 03:16
epa09261178 Peruvian presidential candidate Pedro Castillo greets supporters from the balcony of the Peru Libre party’s headquarters in Lima, Peru, 10 June 2021. Leftist Pedro Castillo maintains a narrow lead over Keiko Fujimori - the daughter of disgraced former President Alberto Fujimori - with just 0.7 percent of the votes from the presidential runoff still to be counted, Peru's ONPE electoral agency said on 10 June.  EPA-EFE/Stringer
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Seinni umferð forsetakosninganna í Perú, sem fram fór næstliðinn sunnudag, voru „jákvæðar og vel heppnaðar kosningar," segir í umsögn kosningaeftirlits Samtaka Ameríkuríkja. Í kosningunum áttust þau við, kennarinn og sósíalistinn Pedro Castillo og frjálshyggju- og kaupsýslukonan Keiko Fujimori.

„Eftirlitsnefndin hefur ekki orðið vör við neinar alvarlegar brotalamir" á framkvæmd kosninganna, segir í umsögn kosningaeftirlitsins, sem Ruben Ramirez, fyrrverandi utanríkisráðherra Paragvæ, fór fyrir. Þar segir enn fremur að framkvæmd seinni umferðarinnar hafi verið mun betri og öruggari en hinnar fyrri.

Endanleg úrslit hafa enn ekki verið tilkynnt, þótt fimm dagar séu liðnir frá kosningum og búið að telja 99,8 prósent atkvæða. Eftirlitsnefndin mælir með því að „hvorugur frambjóðenda verði lýstur sigurvegari fyrr en leyst hefur verið úr öllum ágreiningsmálum.“

Afar mjótt á munum

Castillo hefur engu að síður þegar lýst sig sigurvegara, þar sem hann hefur samkvæmt nýjustu tölum fengið tæplega 50,2 prósent atkvæða, um 60.000 fleiri atkvæði en Fujimori, sem samkvæmt síðustu talningu fékk rúmlega 49,8 prósent atkvæða.

Fujimori er hins vegar ekki á þeim buxunum að viðurkenna ósigur og hefur krafist ógildingar um 200.000 atkvæða frá rúmlega 800 kjörstöðum og endurtalningar um 300.000 atkvæða til viðbótar.