Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hefði mátt gefa út gula viðvörun

12.06.2021 - 15:01
Mynd með færslu
Úr Öræfum. Mynd: RÚV
Mjög hvasst var víða á landinu í gærkvöldi og var vindur í hviðum sums staðar meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Engin veðurviðvörun var í gildi á landinu, en eftir á að hyggja hefði verið vit í því, að sögn Óla Þórs Árnasonar, veðurfræðings á Veðurstofunni.

Hvassast var á sunnanverðu Snæfellsnesi, Kjalarnesi, undir Ingólfsfjalli og Eyjafjöllum og fuku hjólhýsi þar af vegum. Þá fóru hjólhýsi einnig á flakk í Mosfellsbæ.

„Þetta eru þeir staðir sem koma verst út í hvössum norðanáttum og það sannaðist í gærkvöldi,“ segir Óli.

Hann bendir á að varað hafi verið við vindinum í athugasemdum veðurfræðings og morgunpistlum. Full ástæða sé fyrir þá sem ætla í ferðalög með aftanívagna að kynna sér veðurspá og vindmælingar Vegagerðarinnar vel jafnvel þótt ekki hafi verið gefin út gul viðvörun.

Óli segir að alltaf sé matsatriði hvenær gefa eigi út gula viðvörun og fleiri þættir komi til en aðeins vindstyrkur.

Lægð á leiðinni

Önnur lægð gengur yfir landið seint í kvöld og í nótt. Mjög hvasst verður syðst á landinu, á svæði frá Öræfum að Markarfljóti.

Í fyrramálið dregur úr mesta vindinum, og upp úr hádegi á morgun ættu ökumenn með aftanívagna ekki að þurfa að hafa áhyggjur, segir Óli, þótt enn verði nokkur vindur.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV