Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Flaggskipið heldur kúrsi á elleftu skífu GusGus

Mynd: Mobile Home / GusGus

Flaggskipið heldur kúrsi á elleftu skífu GusGus

12.06.2021 - 09:30

Höfundar

Í meira en aldarfjórðung hefur GusGus verið í framvarðasveit danstónlistarinnar. Meðlimaskipan hefur breyst reglulega í gegnum tíðina og nú hefur sveitin bætt við sig Margréti Rán Magnúsdóttur söngkonu úr hljómsveitinni Vök. Hún spilar stórt hlutverk á nýjustu plötu GusGus, Mobile Home. Davíð Roach Gunnarsson rýnir í plötuna.

Davíð Roach Gunnarsson skrifar:

Á dögunum kom út ellefta breiðskífa GusGus-flokksins, Farandheimilið eða Mobile Home. Þar býður hersingin okkur af sinni alkunnu hæversku að heimsækja þeirra eigin heim, krossfesta okkur við rammann, hljóta viðurkenningu allra, brenna upp í aleldi og leika okkur af hamslausum losta. Þrátt fyrir að hafa starfað í meira en aldarfjórðung sýna GusGus ekki á sér nein þreytumerki hér og söngkonan Margrét Rán úr Vök blæs nýju lífi í hljóm og lagasmíðar Bigga Veiru með kaldri og fjarrænni raddbeitingu sem er fullkomið Tonik ofan í klassíska GusGus-þykknið hans Daníels Ágústs.

GusGus er maskína, gangverk, mekanismi og fasti í íslenskri danstónlist. GusGus var stofnuð sem fjöllistahópur árið '95 með liðsmenn eins og Emilíönu Torrini, Magnús Jónsson og Hafdísi Huld, og sem slík framleiddu þau breiðskífuna Polydistortion sem var eins og hlaðborð af þeirri raftónlistargerjun sem bar hæst upp úr miðjum 10. áratugnum. Á This is Normal fóru þau svo út í Beck-legt popp eins og „Ladyshave“, en á þriðju breiðskífunni Attention frá 2002 voru meðlimir skornir niður og hljómurinn meitlaður í hnitmiðað hús og teknó, þar fæddist í raun sú GusGus sem enn er starfandi í dag og elskuð um heim allan.

Forever Selfoss

Attention kallaði athygli að sjálfri sér, dansaði þig undir borðið, var í nánum tengslum við sínar villtu hliðar, og síðast en ekki síst hafði hún David innanborðs, eitt allra kynþokkafyllsta og besta lag íslenskrar tónlistarsögu. Þarna var söngkonan Urður gengin til liðs við strípaða liðsskipan Bigga Veiru, Stebba Steph og Magga Lego og útkoman var unaðsleg. Þau tóku sér heila eilífð eða fimm ár í næstu plötu, Forever, sem kom út 2007. Þar hafði fágaða hústónlistin bætt við sig bjöguðum grodda og rokkuðum synþahljóðum í anda bloghouse-stefnunnar sem þá var allsráðandi, ekki síst í laginu „If You Don’t Jump (You’re English)“ þar sem Veiran samplaði Purrk Pillnikk.

Urður gekk úr skaptinu á 24/7 sem er með lakari GusGus-plötum en gekk aftur í það ásamt Högna úr Hjaltalín á Arabian Horse, sem telst til þeirra sterkustu. Hrossið lagði af stað frá Selfossi og hætti ekki að brokka fyrr en það hafði numið land um allt Suðurlandsundirlendið. Högni steig á bak þessum arabíska hesti og englabarítónninn reið honum á heimsenda og lengra til, ekki síst í tregaþrungnu epíkinni Within You. GusGus héldu því næst til Mexíkó á samnefndri skífu árið 2014, verki þar sem brass- og strengjaútsetningar Högna fengu að njóta sín enn frekar.

Á breiðskífunni Lies are More Flexible frá 2018 voru bara Biggi Veira og Daníel Ágúst eftir í bandinu, og þrátt fyrir að vera áheyrileg út í gegn, var hún utan smáskífanna Featherlight og Don’t Know How To Love ekki sérlega eftirminnileg. Daníel Ágúst hefur verið með GusGus frá upphafi með örstuttum hléum, er frábær söngvari, og rödd hans einn af einkennishljómum sveitarinnar, en mér hefur samt alltaf fundist GusGus betri þegar það er einhver bjartari rödd á móti mónótónískum barítón Daníels, fyrst Urður á Attention og Forever, og svo Högni á Arabian Horse og Mexico. Og þeirri leit er nú lokið eftir að Högni sagði skilið við vélina, því köld og fjarræn rödd Margrétar Ránar úr Vök smellur eins og flís við rassadillandi hústóna Bigga Veiru, eins og heyrðist glöggt á smáskífunni Higher sem kom út í haust.

Ég er viss um að ef Higher hefði komið út á COVID-lausari og djammfrjálsari tímum væri það þegar komið í GusGus-kanónuna ásamt Call of The Wild, Hold You og Add This Song, eftir óteljandi spilanir á smekkfullu dansgólfi Kaffibarsins og annarra staða klukkan korter í þrjú helgi eftir helgi eftir helgi. Higher er í eilítið hægara tempói en flestir GusGus-slagarar sem þó dregur ekki úr krafti þess, níðþungur og gaggandi takturinn heggur sér leið inn fyrir heilabörkinn og staccato-raddsnifsin sveima allt um kring, löngu áður en valdsmannsleg rödd Margrétar Ránar brýtur sér leið inn í lagið og eignar sér það.

Einfaldur þriðjudagur í GusGus-heimi

Það er mónarkískt sjálfsöryggi í söng Margrétar og textinn lýsir einmanalegri tilveru keisaraynju að sligast undan þungri byrði krúnunnar, en myndbandið eftir Árna og Kinski undirstrikar það með annarlegri fagurfræði, drottningarlegu veifi og demógógískum dansi hins fjölritaða og fasíska þegns. Breiðskífan Mobile Home er talsvert sterkari en sú síðasta, og líka með poppaðari verkum sem GusGus hafa sent frá sér, það eru til dæmis bara tvö lög af níu sem brjóta fimm mínútna múrinn og aðeins eitt er án söngs. Upphafslagið Stay the Ride er til dæmis einungis tvær mínútur og fjörutíu og það er ekki annað hægt en að fylgja skipun titilsins, og hlusta á plötuna til enda.

Lagið Simple Tuesday er allt annað en einfalt og hefði vel getað orðið smellur, en það miðlar nýrómantískum anda sveita eins og Human League, Soft Cell eða Culture Club, og kitlandi synþa-arpeggían er svipað grípandi og súperglú. Love is Alone er frábær elektró-ballaða þar sem enginn annar en John Grant ljær Daníel Ágúst hjálp sína við sönginn og eykur dramatíkina umtalsvert. Hryggjarstykkið og akkúrat miðpunktur plötunnar er svo hið anþemíska Our World. Graðir og agressífir synþahljómarnir fá að grassera í rúmlega mínútu áður en Daníel Ágúst hefur upp munúðarfulla rödd sína og hann og Margrét Rán skiptast á línum í guðdómlegu viðlaginu

To our world (Crucified on a frame)
To our world (Approved by everyone)
To our world (You can light it up in flame)
To our world (Our world is yours to play)

Hér bjóða GusGus okkur að stíga inn í sinn heim og verða krossfest við sérsmíðaðan ramma, þeirra eigin heim sem allir samþykkja en gæti fuðrað upp í lystisemdum holdsins hvenær sem er; “Okkar heimur er þitt leiksvæði,” syngja þau og bæta við “Þetta er allt í lagi, þetta er allt alþjóðlegt.” Our World er líka svona lag sem ég held að með hæfilegri dansgólfs-spilun gæti hæglega dottið í flokk með þeirra helstu smellum, og ég vona að það raungerist í sumar með lengri opnunartíma skemmtistaða. 

Silence er lágstemmt lag þar sem bassatromman lætur ekki á sér kræla fyrr en hálfa leið inn í lagið og taktinum er aldrei hleypt almennilega á skeið, en þjónar samt vel sínu hlutverki sem millikafli á seinni hluta plötunnar. Í því, sem og The Rink sem kemur þar á eftir, sannar Margrét Rán mikilvægt hlutverk sitt á plötunni, þótt hér séu það aðeins bakraddir, en þær lyfta samt lögunum yfir á efri hæð sem þau hefðu annars ekki náð.  

Flaggskipið heldur stefnunni

Síðasta er lag plötunnar er svo hið fyrsta án söngs, en Flush er melankólísk og grípandi teknóæfing þar sem Biggi Veira lætur gamminn geisa með sprúðlandi melódíum og pumpandi arpeggíum sem byggjast upp hægt og falla svo aftur saman ofan í tómið sem skóp þær. Hljómsveit eins og GusGus ætti í raun að vera fyrir löngu búin að renna sitt skeið, en það gleður mig ósegjanlega að flaggskip íslenskrar danstónlistar haldi enn þá sömu skapandi stefnunni aldarfjórðungi eftir að það lagði úr höfn. 

Mobile Home er spriklandi hress ellefta breiðskífa og Margrét Rán úr Vök er söngkonan sem sveitin þarfnaðist á akkúrat þessum tímapunkti. Hún, ásamt frábærum lagasmíðum og meitluðum töktum Veirunnar Bigga, flýgur með GusGus í hærri hæðir en ég hafði gert mér í hugarlund að hægt væri að komast aldarfjórðung inn í ferilinn.

 

Tengdar fréttir

Popptónlist

GusGus rýnir í þrumuský yfir mannkyninu

Popptónlist

Ekki feilnóta á ferli

Popptónlist

GusGus - Mobile Home