Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Bergþór sækist eftir endurkjöri

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Bergþór Ólason, oddviti Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi, sækist eftir endurkjöri í kosningum í haust. Þetta staðfestir hann í samtali við fréttastofu, en Bergþór hafði ekki gert upp hug sinn þegar síðast var leitað svara.

Frestur til að skila inn framboðum til uppstillingarnefndar flokksins í Norðvesturkjördæmi rann út á fimmtudag.

Sigurður Páll Jónasson, annar þingmaður flokksins í Norðvesturkjördæmi, segir í samtali við fréttastofu að hann hafi ekki enn ákveðið hvort hann sækist eftir endurkjöri.

Greint var frá því í Morgunblaðinu í morgun að Karl Gauti Hjaltason þingmaður sæktist eftir oddvitasæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi en það gerir Birgir Þórarinsson, oddviti flokksins í kjördæminu sömuleiðis.

Karl Gauti var kjörinn á þing fyrir Flokk fólksins, en gekk til liðs við Miðflokkinn eftir að Klausturmálið kom upp. Miðflokkurinn á því tvo þingmenn í kjördæminu þrátt fyrir að hafa aðeins fengið einn mann kjörinn.

Listar skýrast í lok mánaðar

Miðflokkurinn er annar tveggja flokka á þingi sem ekki hefur birt neinn lista fyrir kosningarnar í haust. Það breytist þó von bráðar. Stillt er upp á lista flokksins í öllum kjördæmum, og hefur fimm manna uppstillingarnefnd hefur verið skipuð í hverju kjördæmi.

Framboðsfrestur er runninn út í Norðvesturkjördæmi, en í öðrum kjördæmum rennur frestur út á allra næstu dögum; seinast í Norðausturkjördæmi 20. júní.

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu flokksins má eiga von á því að tillögur uppstillingarnefndar liggi fyrir undir lok mánaðar, en þær verða svo bornar undir kjördæmaráð til staðfestingar.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins og oddviti í Suðvesturkjördæmi, er eini þingmaður flokksins sem hefur gefið út að hann muni ekki sækjast eftir endurkjöri. Það gerði hann í síðasta mánuði.

Una María Óskarsdóttir, lýðheilsufræðingur og uppeldis- og menntunarfræðingur og varaþingmaður flokksins, hefur gefið út að hún sækist eftir oddvitasætinu í kjördæminu.

 

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV