Tóku sig af frumvarpi um strandveiðar

11.06.2021 - 15:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þrír þingmenn Vinstri grænna tóku sig af lista yfir meðflutningsmenn frumvarps um breytingar á stjórn fiskveiða. Þau óttuðust að málið kynni að spilla samningaviðræðum um þinglok.

Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Vinstri grænna og formaður atvinnuveganefndar Alþingis lagði á miðvikudag fram frumvarp sem var ætlað að tryggja strandveiðar til 48 daga í ár.

Fjórir stjórnarþingmenn voru skráðir sem meðflutningsmenn Lilju á frumvarpinu þegar það var lagt fram: Halla Signý Kristjánsdóttir þingmaður Framsóknarflokks, Ari Trausti Guðmundsson þingmaður Vinstri grænna, Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður Vinstri grænna og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður Vinstri grænna. Þessi þrjú síðasttöldu tóku sig hins vegar af lista yfir meðflutningsmenn í morgun þegar Píratar lögðu fram tillögu um að málið yrði sett á dagskrá þingfundar.

Almennt komast mál ekki á dagskrá þingfundar ef þau eru lögð fram stuttu áður en þingi lýkur. Forystumenn þingflokka hafa síðastliðna daga verið að semja um afgreiðslu mála fyrir þinglok og því nánast útilokað að bæta nýjum málum á þann lista.

„Við óttuðumst að það kynni að spilla viðræðum um þinglok ef þetta mál yrði sett á dagskrá,“ segir Bjarkey Olsen í samtali við fréttastofu.

Á rauða takkanum gegn dagskrártillögu

Við upphaf þingfundar í morgun lögðu Píratar fram tillögu um að málið yrði sett á dagskrá þingfundar. Þeir sökuðu Lilju um að breiða út þá sögu að það væri Pírötum að kenna að málið væri ekki komið á dagskrá. 

„Málið er gott, en háttvirtur þingmaður Lilja Rafney Magnúsdóttir hefur hins vegar verið að spreða því út um allan bæ að það sé á einhvern hátt stjórnarandstöðunni að kenna að málið komist ekki á dagskrá. Ég vil halda því til haga að háttvirtur þingmaður er formaður atvinnuveganefndar og ég sit í þeirri nefnd. Háttvirtur þingmaður er með þingflokksformann sem semur ekki um málið fyrir hennar hönd. Háttvirtur þingmaður er í sama flokki og virðulegur forseti sem setur málið ekki á dagskrá. Háttvirtur þingmaður er í sama flokki og hæstvirtur forsætisráðherra sem virðist ekki styðja málið. Það erum við sem styðjum málið, Píratar, og stjórnarandstaðan vænti ég, við viljum setja málið á dagskrá fyrir smábátasjómenn. Sjáum hvað setur,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata í atkvæðagreiðslu í morgun.

Formaður þingflokks Sjálfstæðismanna sakaði Pírata um að reyna að spilla viðræðum um þinglok.

„Ég veit ekkert um stympingar einstakra þingmanna og ætla ekki að blanda mér í það. Hins vegar er alveg ljóst að það er auðvitað ekki hægt að taka mál af þessu tagi á dagskrá í miðju kafi þegar við erum að reyna að ganga frá þinglokum. Málið kom fram, eftir því sem ég best veit, í gær. Mér finnst alveg fráleitt af Pírötum að vera að senda þetta tundurskeyti inn í þinglokasamninga með þessum hætti til að raska málum,“ sagðir Birgir Ármannsson þingmaður Sjálfstæðiflokks.

Bjarkey sagði málið koma fram á óheppilegum tíma.

„Málið er gott í sjálfu sér en ég tel ekki rétt á þessum síðustu lokametrum þegar við erum að reyna að ljúka þingi, og við vorum nú langt komin með það hér í gærkvöldi, að þetta mál sé tekið hér inn því að þetta er lagafrumvarp sem þarf auðvitað töluverða umræðu. Ég tel að að svo komnu máli, á þessum tímapunkti, sé bara ekki tími til þess að bæta einu máli ofan á. Við vorum búin að loka þeirri málaskrá sem við vorum með í höndum að mínu mati og allra annarra. Í samtölum okkar þingflokksformanna vorum við með ákveðinn lista sem við vorum að vinna með og héldum okkur stíft við hann. Ég vil ekki hvika frá því, þannig að Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun ekki greiða þessu máli atkvæði sitt, þ.e. að við verðum á rauða takkanum fyrir utan formann atvinnuveganefndar,“ sagði Bjarkey.

Leikhús fáránleikans

Þingmenn Viðreisnar sátu hjá í atkvæðagreiðslu um dagskrártillöguna. Hanna Katrín Friðriksson formaður þingflokks Viðreisnar líkti stöðunni við leikhús fáránleikans.

„Við erum hér stödd í einhverri senu í leikhúsi fáránleikans. Í stað þess að hafa farið í umræðu um mikilvægt mál á sínum tíma, á eðlilegum tíma, samþykkt tillögu sem fyrir var, unnið með hana, verið fyrr með þetta mál, tekið samtalið til að útkljá mál sem varðar hagsmuni fjölda sjómanna og fjölskyldna þeirra, þá stöndum við hér föst í einhverjum formsatriðum af því að enn og aftur sýna stjórnvöld, sér í lagi formaður atvinnuveganefndar, að samvinna er eitthvert óþekkt fyrirbæri á þeim bænum. Þetta er staða sem hefði ekki þurft að koma upp, en við stöndum frammi fyrir henni,“ sagði Hanna Katrín.

Gunnar Bragi Sveinsson formaður þingflokks Miðflokksins tók í svipaðan streng.

„Það er með ólíkindum að formaður atvinnuveganefndar skuli fara í þennan leiðangur, að leggja fram þingmál vitandi að ekki er meirihluti fyrir því hjá meirihlutaflokkunum að koma því inn í þingið, og fari í þá vegferð að móbilisera einhverja bylgju um landið um að kenna stjórnarandstöðunni um að málið komist ekki á dagskrá. Ég hef verið hér í tólf ár og ég man ekki eftir svona vinnubrögðum, að menn leggist svona lágt, að fara í slíkan leiðangur, ég verð að segja það,“ sagði Gunnar Bragi.

Lilja Rafney vísaði því á bug að hún hefði farið með ósannindi í málinu. 

„Ég hef ekki logið neitt í þessu máli. Þingið hefur fulla burði til þess ef mál koma inn að taka þau á dagskrá í þinglokasamningum. En það var ekki gert. Þannig liggur þetta mál. Í atvinnuveganefnd er frumvarp frá hæstvirtum sjávarútvegsráðherra sem dregur úr afla í strandveiðum og býður upp á að róa á öllum dögum, svo strandveiðar hefðu klárast miklu fyrr hefði það frumvarp nokkurn tíma verið samþykkt. Þannig er nú sá veruleiki. En ég held áfram að berjast fyrir strandveiðum og fyrir sjávarbyggðir landsins og læt ekki saka mig um það vera að ljúga að einum eða neinum. Það er ekki minn háttur,“ sagði Lilja Rafney.

Meðflutningsmaður greiddi atkvæði gegn því að málið færi á dagskrá

Dagskrártillagan var felld með 30 atkvæðum gegn 10. Þingmenn Pírata og Flokks fólksins greiddu atkvæði með tillögunni og líka Lilja Rafney. Stjórnarþingmenn greiddu atkvæði gegn tillögunni þar á meðal Ari Trausti Guðmundsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

Halla Signý Kristjánsdóttir eini meðflutningsmaður frumvarpsins greiddi líka atkvæði gegn því að málið færi á dagskrá. 

Þingmenn Viðreisnar, Miðflokks og Samfylkingar sátu hjá í atkvæðagreiðslunni. Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Miðflokksins greiddi hins vegar atkvæði gegn tillögunni. 

fréttin hefur verið uppfærð með nánari upplýsingum um atkvæðagreiðsluna. 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV