Tekist á um bólusetningarskyldu í skemmtiferðaskipum

epa08325431 Several cruise ships are sits docked at the cruise terminal in Miami, Florida, USA, 26 March 2020. The outbreak of the COVID-19 coronavirus is forcing many cruise lines to alter or cancel scheduled sailings due to passengers either delaying or canceling plans. The major cruise lines are predicting significant reductions in earnings this year due to the coronavirus outbreak.  EPA-EFE/CRISTOBAL HERRERA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nokkrar stórútgerðir skemmtiferðaskipa, með bækistöðvar í Bandaríkjunum, iða í skinninu eftir að fá að hefja siglingar frá Flórídaströndum að nýju, nú þegar heimsfaraldur kórónaveirunnar er á hröðu undanhaldi vestanhafs. Siglingar eiga að hefjast í júlí og bókanir ganga vel - en þó er einn hængur á: Ríkisstjórinn í Flórída, Ron DeSantis, bannar skipafélögunum að gera bólusetningu gegn COVID-19 að skilyrði fyrir því að fólk fái að fara í siglingu með þeim, eins og til stóð.

Ekkert útlit er fyrir að úr þessari pattstöðu leysist á næstunni, því ríkisstjórinn haggast ekki í sinni afstöðu og það gera sum skipafélögin ekki heldur. AFP-fréttastofan hefur eftir Doug Parker, sem er sérfróður á þessu sviði, að Flórída sé „skemmtisiglingamiðstöð heimsins" þannig að milljarða dala tekjur og þúsundir starfa séu að veði. Það yrði því mikill skellur, segir Parker, ef ekki semst.

Sitji ríkisstjórinn við sinn keip, segir hann, „verða skipafélögin að hefja siglingar frá öðrum höfnum, sem vilja fá þau ... því [útgerðirnar] eru einfaldlega að reyna að gera það sem rétt er."

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna krefst þess að minnst 95 prósent farþega og skipshafnar séu bólusett, vilji útgerðir komast hjá kröfum um tilraunasiglingar, sem lúta margvíslegum takmörkunum, og hefja almennar siglingar á ný.

Háar sektir fyrir að krefjast bólusetningarvottorðs

DeSantis var með allra fyrstu ríkisstjórum Bandaríkjanna til að afnema nokkurn veginn allar takmarkanir vegna COVID-19. Í síðasta mánuði staðfesti hann löggjöf sem bannar fyrirtækjum í ríkinu að krefjast bólusetningarvottorðs, hvort heldur sem er af starfsfólki eða viðskiptavinum, að viðlögðum sektum. Í tilfelli skemmtiferðaskipanna gæti sú sekt numið allt að 5.000 Bandaríkjadölum á hvern farþega.

Þrjár af stærstu farþegaskipaútgerðum heims eru með höfuðstöðvar sínar í Miami; Carnival Cruise Line, Royal Caribbean og Norwegian. Sú fyrstnefnda auglýsir enn fyrstu ferð frá Flórída 4. júlí en hefur ekki skorið úr um það opinberlega, hvort það ætli að krefja farþega um bólusetningarvottorð.

Royal Caribbean, sem hafði tilkynnt bólusetningarskyldu, lét undan þrýstingi ríkisstjórans og segist nú einungis ætla að „mæla sterklega með því að fólk láti bólusetja sig.“ Þau sem ekki geri það, geti þó átt von á ýmsum takmörkunum sem aðrir farþegar þurfi ekki að búa við.

Þriðja skipafélagið, Norwegian, haggast hins vegar hvergi og hóta að hætta allri starfsemi í Flórída, verði þeim meinað að krefja farþega og áhöfn um bólusetningarvottorð. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV