Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Svíar óttast delta-afbrigði kórónuveirunnar

epa09122718 People queue to get vaccine against the Covid-19 outside the Stockholmsmassan exhibition center turned into a mass vaccination center in Stockholm, Sweden, 08 April 2021.  EPA-EFE/FREDRIK SANDBERG SWEDEN OUT
 Mynd: EPA-EFE - TT
Heilbrigðisyfirvöld í Svíþjóð hafa aukið smitrakningu eftir að svonefnt delta-afbrigði kórónuveirunnar tók að breiðast þar út. Hætta er talin á að fjórða bylgja COVID-19 brjótist þar út.

Delta-afbrigðisins varð fyrst vart á Indlandi síðastliðið haust. Að sögn Anders Tegnells sóttvarnalæknis liggja fyrir staðfestar upplýsingar um 71 smit á ellefu svæðum í Svíþjóð. Af þeim sökum hefur smitrakning verið aukin og hert á sóttvarnareglum í Vermalandi og Blekinge.

Tegnell telur að þrátt fyrir þetta seinki ekki áætlunum um að létta á sóttvörnum í landinu í heild, en það kunni þó að breytast. Samkvæmt rannsókn breskra heilbrigðisyfirvalda dreifist delta-afbrigði veirunnar sextíu prósentum hraðar en hið breska sem nú kallast alfa. Delta er núna útbreiddasta afbrigðið í Bretlandi. 

Í Svíþjóð greindust 727 ný veirusmit síðastliðinn sólarhring. Níu létust af völdum COVID-19. Tæplega ellefu hundruð þúsund hafa smitast frá því að farsóttin braust út. Búið er að bólusetja tæplega helming fullorðinna landsmanna einu sinni og hátt í fjórðung tvisvar. Meira en níu af hverjum tíu sem orðnir eru 65 ára og eldri hafa fengið að minnsta kosti annan skammtinn.