Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Námsmenn fá sumarstörf

11.06.2021 - 13:07
Mynd með færslu
 Mynd: Ouicoude - Wikimedia
Þrátt fyrir neikvæð áhrif heimsfaraldsins á atvinnulífið hefur námsmönnum gengið vel að finna sumarstörf í sveitarfélögunum fyrir norðan. Vinnumálastofnun hóf atvinnuátak í sumarstörfum fyrir námsmenn í fyrrasumar og stendur fyrir sams konar átaki í ár. Þörfin fyrir það virðist þó ekki vera eins aðkallandi og gert var ráð fyrir.

Átak Vinnumálastofunar ekki fullnýtt

Á Norðurlandi hefur ungmennum gengið vel að finna sumarstörf. Í sveitarfélögunum fyrir norðan er ekki hægt að sjá að áhrif heimsfaraldurins hafi haft veruleg áhrif á möguleika þeirra til að fá vinnu í sumar. 

Átak Vinnumálastofnunar var unnið í samvinnu við ýmsar stofnanir, félagasamtök og sveitarfélög og nær yfir allt landið. Misjafnt er hvernig gengur að manna störfin. Athygli vekur að í Norðurþingi hefur einungis verið unnt að ráða í tvö þeirra níu starfa sem í boði voru. Annar starfsmaðurinn var ráðinn til Raufarhafnar en hinn til Húsavíkur. Þessi dræma ásókn námsmanna í sumarstörf er hægt að túlka sem svo að atvinnuástand á svæðinu sé ekki eins slæmt og óttast var.

Átakinu var hrint úr vör vegna neikvæðra áhrifa heimsfaraldurins á atvinnulífið í landinu. Í fyrrasumar voru takmörkuð atvinnutækifæri á Norðurlandi eins og annars staðar þar sem ferðaþjónustan hlaut mikið högg. Nú virðist greinin aftur vera að taka við sér og atvinnurekendur hafa ráðið fleiri námsmenn en gert var ráð fyrir í átaksverkefninu. Það ætti meðal annars að skýra færri umsóknir í störf sem falla undir átaksverkefnið.

Ekki eins slæmt og gert var ráð fyrir

Halla Margrét Tryggvadóttir, sviðsstjóri hjá Akureyrarbæ, segir að verið sé að ganga frá síðustu ráðningum í þau 49 störf sem Vinnumálastofnun lagði til í átakinu um sumarstörf námsmanna. Í mörgum þessara starfa séu fólgin sérstaklega spennandi tækifæri fyrir háskólanema til að nýta nám sitt í starfi.

Halla Margrét segir að margir umsækjendanna sem voru boðin störf hafi verið búnir að ráða sig annars staðar. Það þykir henni benda til að atvinnuástandið sé ekki eins slæmt og gert var ráð fyrir og mun betra en í fyrra. Staðan á vinnumarkaði í bænum sé þó langt frá því að vera sambærileg við það sem var fyrir heimsfaraldurinn.

Stúdentaráð hefur gagnrýnt hvað störfin komu seint fram en þau voru auglýst eftir 11. maí. Halla Margrét telur líklegt að það hafi haft áhrif á fjölda umsókna en bendir jafnframt á að þeir sem þá þegar hafi verið komnir með vinnu falli í sjálfu sér ekki undir atvinnuátakið.

Allir á Blönduósi með sumarvinnu

Á Blönduósi var úthlutað tveimur störfum í átaki Vinnumálastofnunar og gekk vel að ráða í þau.  Ágúst Bragi Bragason hjá Blönduósbæ segir að allir sumarstarfsmenn á Blönduósi hafi fengið vinnu. Atvinnuástandið sé gott, bæði í þjónustustörfum og hjá verktökum, þannig að bæjaryfirvöld hafi ráðið færri starfsmenn en í fyrra.