Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Mál Magnúsar fellt niður hjá MDE eftir dómsátt

epa06677073 An exterior view of the the European Court of Human Rights in Strasbourg, France, 18 April 2018 .  EPA-EFE/PATRICK SEEGER
 Mynd: EPA
Mál Magnúsar Guðmundssonar, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg, sem verið hefur til umfjöllunar hjá Mannréttindadómstól Evrópu, hefur verið fellt niður. Er það gert þar sem hann og íslenska ríkið hafa náð dómsátt vegna málsins, sem meðal annars kveður á um 2,2 milljón króna bætur honum til handa. Fréttablaðið greinir frá.

Magnús var sakfelldur í Hæstarétti 2016 fyrir aðild að svokölluðu markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Sneri Hæstiréttur þannig að miklu leyti úrskurði héraðsdóms, þar sem  tveimur ákæruatriðum var vísað frá og Magnús sýknaður af öðrum.

Magnús kærði sakfellingu Hæstaréttar á þeim forsendum að tveir dómarar í málinu hafi verið vanhæfir vegna starfa sona þeirra hjá annars vegar embætti sérstaks saksóknara og hins vegar slitastjórn Kaupþings.

Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að með dómsáttinni afsali Magnús sér rétti til að gera frekari kröfur á ríkið vegna málsins en ríkið viðurkenni á móti að brotið hafi verið á rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar. Jafnframt er viðurkenndur réttur Magnúsar til að óska eftir endurupptöku málsins, og eins fellst ríkið á að greiða honum 15.000 evrur, jafnvirði ríflega 2,2 milljóna króna, í bætur.