Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hamfarir á mannréttindasviðinu í Mjanmar

11.06.2021 - 12:49
epa07685171 Female soldiers of National Democratic Alliance Army (NDAA) march in a parade during the celebration to mark the 30th anniversary of Eastern Shan State Special Region 4, at border city Mong La, Eastern Shan State, Myanmar, 30 June 2019. Shan State Special region 4 (also called Mong La autonomous region) celebrates its 30th anniversary celebrations in Mong La, one of the major cities in Golden Triangle Region which was built from a small village to become Myanmar's capital of gambling.  EPA-EFE/LYNN BO BO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að ofbeldi fari stigvaxandi í Mjanmar. Mannréttindi séu þar fótum troðin og hundruð almennra borgara hafi verið myrt frá því að herforingjastjórnin rændi völdum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Michelle Bachelet mannréttindastjóri sendi frá sér í dag. Þar segir að áður en herforingjastjórnin rak Aung San Suu Kyi og samherja hennar frá völdum fyrsta febrúar og tók við stjórninni hafi ríkt brothætt lýðræði í Mjanmar. Nú ríki þar sannkallaðar hamfarir á mannréttindasviðinu. Mótmæli almennra borgara gegn valdaráninu séu miskunnarlaust brotin á bak aftur. Áreiðanlegar heimildir séu fyrir því að minnst 860 úr þeirra röðum hafi verið teknir af lífi.

Þá segir Bachelet að ofbeldi fari vaxandi víða um landið, þar á meðal í ríkjunum Kayah, Chin og Kachin. Þar sé miskunnarlaust barið á minnihlutahópum. Þá sakar hún her landsins um að beita loftárásum og þungavopnum gegn vopnuðum hópum sem reyna að andæfa valdaráninu. Jafnvel kirkjur kristinna eru jafnaðar við jörðu.

Mannréttindastjórinn segir að flótti sé brostinn á í héruðum þar sem ástandið er verst. Á annað hundrað þúsund hafi flúið frá Kayeh síðustu þrjár vikur. Margir hafist við í skógum þar sem skortur er á matvælum, vatni og hreinlætisaðstöðu. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV