„Gerum mun meira úr jafnmiklu“

11.06.2021 - 19:04
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Að gera meira en áður úr jafnmiklu hráefni er lykillinn að verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi til framtíðar. Tækni og nýsköpun mun gjörbylta geiranum, margfalda arðsemi og fjölga störfum sem tengjast nýtingu sjávarafurða og hugviti henni tengdu.

 

Í nýrri skýrslu um stöðu og horfur í íslenskum sjávarútvegi kemur fram að fiskistofnar í íslenskri landhelgi eru nánast fullnýttir. Magn af botnfiski og flatfiski, sem veiddur verður á næstu árum, verður í kringum hálf milljón tonna og veiðar á uppsjávarfiski verða svipaðar og verið hefur næstu árin. Eina leiðin til að auka verðmætin er að nýta tækni og nýsköpun til að lækka framleiðslukostnað og auka þannig nýtingu og arðsemi.

Sveinn Agnarsson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands segir að á næsta áratug gæti virði framleiðslu í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum vaxið úr 330 milljörðum króna  í 615 milljarða króna, eða tæplega tvöfaldast.

„Fiskeldi mun náttúrulega vaxa mjög mikið. Við vitum að það er í pípunum mjög margt og við getum alveg gert ráð fyrir að fiskeldi, með aukinni framleiðslu í sjókvíum og á landi og meiri vinnslu afurða úr fiskeldi hér heima, að þá gætum við allt að fimmfaldað verðmætið þar.“

Fyrirtæki sem vinna úr þörungum og líftækni munu einnig vaxa.

„Við erum of háð of fáum fiskstofnum eins og til dæmis þorskinum sem hefur verið mjög ráðandi og því er mikilvægt fyrir okkur að renna fleiri stoðum undir sjávarútveginn og nýsköpun tengda honum til hagsbóta fyrir samfélagið í heild.“

Líftækni, matvælaþróun, tækjabúnaður og hugbúnaður tengdur sjávarafurðum hefur í raun skapað hér nýja útflutningsgrein sem á sér bjarta framtíð ef vel er haldið á málum.

Sigríður Mogensen er sviðstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins segir að með nýsköpun á mörkum sjávarútvegs og iðnaðar verði til ný fyrirtæki og ný verðmæti sem svo fari á alþjóðamarkað og auki útflutningstekjur íslenska þjóðarbúsins.

„Það verður ekki lögð nógu mikil áhersla á hversu mikilvægt þetta er fyrir hagkerfið til framtíðar.“

Guðmundur Hafsteinsson, fyrrverandi formaður stýrihóps um nýsköpun í sjávarútvegi segir byltingu eiga sér stað hvað þetta varðar.

„Eftir því sem tíminn líður þeim mun styttra sér maður fram í tímann því tækniframfarirnar eru svo hraðar. Fyrst og fremst mun það vera eitthvað tengt gervigreind og þess háttar tækni sem mun gjörbylta þessu öllu saman.“

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV