Frábær fyrri hálfleikur tryggði Íslandi sigur

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Frábær fyrri hálfleikur tryggði Íslandi sigur

11.06.2021 - 18:52
Ísland vann góðan sigur á Írlandi í fyrri æfingaleik liðanna á Laugardalsvelli í kvöld. Íslenska liðið átti frábæran fyrri hálfleik og skoraði þrjú mörk fyrir hálfleik. Írar minnkuðu muninn í byrjun síðari hálfleiks og skoruðu annað mark sitt í uppbótatíma. Ísland vann því leikinn 3-2

Það var bæði hvasst og kalt í Laugardalnum þar sem íslenska landsliðið tók á móti því írska á Laugardalsvelli. Í fyrsta sinn í tæp tvö ár voru áhorfendur leyfðir á leik með liðinu og stuttu þeir vel við bakið á liðinu í dag.

Íslenska landsliðið byrjaði mun betur í dag og pressaði Íra hátt upp á vellinum á meðan að írska liðið beið færis að beita skyndisóknum. Fyrsta markið kom strax á 11. mínútu þegar Glódís Perla Viggósdóttir átti frábæra sendingu inn fyrir vörn írska liðsins þar sem Agla María Albertsdóttir tók snyrtilega við boltanum og lyfti honum yfir markvörð Íra. 

Tveimur mínútum eftir markið var komið að fyrsta Víkingaklappi ársins á vellinum og í sömu andrá kom annað mark íslenska liðsins. Liðið sótti upp hægri kantinn og eftir smá klafs í teignum var það fyrirliðinn, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, sem ýtti boltanum yfir línuna. 

Talsverð ró færðist yfir leikinn eftir markið en íslenska liðið var áfram betri aðilinn á vellinum. Á 39. mínútu skoraði Dagný Brynjarsdóttir þriðja mark Íslands. Alexandra Jóhannsdóttir átti þá þrumuskot í stöng og boltinn barst til Dagnýjar sem stóð rétt fyrir utan teig og hún skoraði með góðu skoti. Staðan í hálfleik var því 3-0 fyrir Ísland.

Írar gerðu tvær breytingar á liði sínu í hálfleik og mættu mun ákveðnari til leiks í síðari hálfleik. Á 50. mínútu minnkaði Heather Payne fyrir Írland en liðið hafði þó sótt hart að íslenska markinu. Leikurinn róaðist mikið eftir markið en írska liðið átti þó áfram hættulegri sóknir á meðan að Ísland treysti á skyndisóknir.

Í uppbótatíma skoraði Amber Barrett annað mark Íra. Þetta reyndist lokamark leiksins og Ísland vann því eins marks sigur, 3-2 en liðin mætast aftur á þriðjudaginn.