Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fimm frelsandi á föstudegi

Mynd með færslu
 Mynd: How Not To Drown

Fimm frelsandi á föstudegi

11.06.2021 - 13:20

Höfundar

Það er jákvæðni og hellings sumar í Fimmunni að þessu sinni þó að Robert Smith komi við sögu í samstarfi sínu við Chvrches. Önnur með spriklandi ferskt eru hjólaskautaáhugamaðurinn Chet Faker og hressu stelpurnar í Girl Ray ásamt endurgerð Önnu Prior á Metronomy og smellur frá partýdýrunum í Jungle.

Chet Faker – Feel Good

Nicholas James Murphy, betur þekktur sem Chet Faker, hefur tekið fram Jesú skykkjuna og hjólaskautana til að fagna sumri. Tilefnið er nýtt lag sem heitir Feel Good og er af væntanlegri plötu kappans Hotel Surrender sem kemur út um miðjan næsta mánuð.


Girl Ray – Give Me Your Love

Tríóið Girl Ray er frá London og skipað þremur hressum píum sem hafa starfað saman í nokkur ár. Jákvæði og lágstemmdi hússmellurinn þeirra, Give Me Your Love, er unninn með þeim Al Doyle og Joe Goddard úr Hot Chip í stúdíói þeirra á Brick Lane í London.


Metronomy, Anna Prior – Everything Goes My Way

Í vikunni var tilkynnt að hljómsveitin Metronomy væri væntanleg á Iceland Airwaves, sem eru góðar fréttir. Sveitin hefur sent frá sér sex plötur á rúmlega áratug. Platan English Rivera er 10 ára um þessar mundir en hún var útnefnd til Mercury-verðlaunanna 2012. Í tilefni af því kom endurgerð á laginu Everything Goes My Way sem er gerð af plötusnúðnum og trommara sveitarinnar, Önnu Prior.


Jungle – Talk About It

Þriðja plata partýdýranna í Jungle er væntanleg í ágúst og heitir Loving In Stereo. Í tilefni af því hafa þeir sent frá sér lagið Talk About It og hópdansmyndband sem hefur verið eitt af aðalsmerkjum dúettsins.


CHVRCHES, Robert Smith – How Not To Drown

Síðasta föstudag kom út afrakstur samstarfs skosku syntasveitarinnar Chvrches við Cure-kónginn Robert Smith og er frekar vel heppnuð poppnegla. Lagið verður að finna á fjórðu plötu sveitarinnar, Screen Violence, sem kemur út í lok ágúst.


Fimman á Spotify