Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Einn blóðtappi tengdur AstraZeneca

Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Af tíu alvarlegum tilfellum í kjölfar bólusetninga er eitt líklegt til að vera af völdum hennar. Það var blóðtappi sem er sjaldgæf aukaverkun AstraZenca. Þetta er niðurstaða tveggja óháðra sérfræðilækna. 

Töluvert hefur borist af tilkynningum um aukaverkanir til Lyfjastofnunar í kjölfar bólusetninga við COVID-19. Fáar tilkynningar um alvarlegar aukaverkanir hafa borist.

Forstjóri Lyfjastofnunar, landlæknir og sóttvarnalæknir létu óháða sérfræðinga rannsaka fimm andlát og fimm tilvik blóðtappa.

Eitt tilfelli af tíu líklega tengt

Niðurstöður þeirra voru birtar í dag. 

„Niðurstöðurnar úr þessari rannsókn eru þær að það er aðeins í einu tilfelli af þessum tíu sem við skoðuðum sem við teljum líklegt að bóluefnið eigi þátt í alvarlegri aukaverkun. Og það er í tilfelli þar sem að einstaklingur fékk blóðflögufæð og blóðtappa og þetta er vel þekkt aukaverkun af bóluefni AstraZeneca en mjög sjaldgæf,“ segir Davíð Ottó Arnar.

Davíð og Brynjar Viðarsson gerðu athugunina og eru báðir sérfræðingar í lyflækningum; Davíð líka í hjartasjúkdómum og Brynjar líka í blóðsjúkdómum.

Náði fullum bata

Aukaverkunin er skammstöfuð VITT og er bóluefnaorsökuð blóðflögufæð og segamyndun og kemur hún fram hjá einum af hverjum 100 þúsund sem fá bóluefni frá Janssen eða AstraZeneca. Sá sem fékk blóðtappann er hraustur, ekki með undirliggjandi sjúkdóm og náði fullum bata. 

Ekki með öllu útilokað að eitt andlát tengist bóluefni

„Í fjórum af fimm tilvikunum hvað andlátin varðar þá teljum við að það sé ekki neitt orsakasamhengi á milli bólusetningar og andlátsins. Í einu tilfelli vorum við ekki alveg viss. Þar var um að ræða einstakling sem var með alvarlegan undirliggjandi sjúkdóm, krabbamein.“

Davíð segir blóðtappann í þessu tilfelli vel geta verið tengdan krabbameininu en ekki sé með öllu útilokað að bóluefnið hafi átti þátt í því. 

Banameinið ekki tengt bólusetningunni

Á sunnudaginn var sagði Trausti Leósson að hann og fjölskyldan vildu að rannsakað yrði hvort AstraZeneca-bólusetning hefði valdið andláti konu hans, Þyriar Kap Árnadóttur, sem lést daginn eftir bólusetningu í mars. Andlát Þyriar var eitt þeirra sem rannsakað var. Niðurstaða athugunarinnar er sú að það var ekki af völdum bólusetningarinnar, heldur var banameinið annað. 

Sýnir að alvarlegar aukaverkanir eru sjaldgæfar

Þau sem létu gera athugunina segja niðurstöðuna ekki kalla á breytingar á núverandi fyrirkomulagi bólusetninga. 

„Mér finnst okkar skoðun í raun bara undirstrika það að alvarlegar aukaverkanir af völdum bólusetninga af völdum COVID-19 eru mjög sjaldgæfar.“