Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Einelti í borgarráði og margir upplifað kvíða

11.06.2021 - 07:34
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Erfið samskipti á vettvangi borgarráðs hafa gengið mjög nærri starfsmönnum og kjörnum fulltrúum. Margir hafa fundið til kvíða, sérstaklega fyrri tvö árin, og telja að einelti hafi viðgengist á vettvangi ráðsins. Þetta er meðal þess sem kemur fram í kynningu á úttekt sálfræðistofunnar Lífs og sálar á starfsumhverfi borgarráðs. Þar segir enn fremur að andrúmsloftið og hegðun sem hafi verið höfð í frammi hafi skaðað málefnalega og frjóa umræðu í borgarráði.

Skýrslan var kynnt á fundi borgarráðs í gær. Í úttektinni var rætt við fjórtán starfsmenn sem koma reglulega fyrir borgarráð og sex kjörna fulltrúa. Kostnaðurinn við úttektina nam tveimur milljónum króna.

Fjölmiðlar hafa fjallað talsvert um samskiptavanda Helgu Bjargar Ragnarsdóttur, skrifstofustjóra á skrifstofu borgarstjóra, og Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins. Vigdís sneri jafnvel baki í Helgu Björgu þegar hún kom fyrir borgarráð í gegnum fjarfundabúnað.

Vigdís kvartaði yfir úttektinni til Persónuverndar og kærði hana til samgöngu-og sveitarstjórnarráðuneytisins. 

Í úttekt Lífs og sálar kemur fram að það hljóti að skapa mikið varnarleysi hjá starfsmönnum borgarinnar að „að hægt sé að niðurlægja einstaklinga með nafni í fjölmiðlum og geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér.“ Gera þurfi mikla bragarbót og æðstu stjórnendur verði að skapa skjól og öryggi fyrir sína starfsmenn.  

Þá segir í úttektinni að það þurfi að vera mjög skýrt að það sé ekki í verkahring stjórnmálamanna að skipta sér af starfsmannamálum Reykjavíkurborgar eða faglegum verkferlum og vinnubrögðum.

Í úttektinni segir að ýmislegt hafi verið gert undanfarið ár sem hafi verið til bóta og séu margir starfsmenn þakklátir fyrir það. Þeir hafi meðal annars fundið aukinn stuðning frá yfirmönnum sínum og æðstu stjórnendum.

Helga Björg tilkynnti á miðvikudag að fallist hefði verið á beiðni hennar um tilfærslu í starfi. Í færslu á Facebook sagðist hún vona að kjörnir fulltrúar tækju úttekt Lífs og sálar alvarlega. Mistekist hefði að tryggja með fullnægjandi hætti öryggi starfsfólks gagnvart „ofbeldisfullri framkomu borgarfulltrúa jafnvel með hótunum um líkamsmeiðingar á lokuðum fundum.“

Meirihlutinn lét bóka á fundinum í gær að leita þyrfti allra leiða til að stöðva neikvæða og niðurlægjandi framkomu á vettvangi borgarráðs. Þeir ferlar sem fyrir væru næðu ekki með góðum hætti utan um samskipti kjörinna fulltrúa og starfsmanna og úr því þyrfti að bæta.

Sjálfstæðisflokkurinn skellti skuldinni á meirihlutann. Hann sagði í bókun sinni að mikið skorti á að meirihlutinn ynni með þeim sem væru í minnihluta eins og tíðkaðist í langflestum sveitarfélögum. „Þetta fyrirkomulag dregur úr trausti og er ólýðræðislegt. Afleiðingarnar eru þær að traust almennings á borgarstjórn er í lágmarki og mikið hefur verið um veikindi borgarfulltrúa.“  Siðareglur hefðu ekki verið virtar og breyta þyrfti um kúrs.

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins,  beindi spjótum sínum aftur að Helgu Björgu og sakaði hana um að hafa rofið trúnað um úttektina með því tjá sig á Facebook. Hún benti jafnframt á að í borgarráði sætu tíu kjörnir fulltrúar en samt væri því haldið fram að kynningin væri ópersónugreinanleg. Þá gerði hún alvarlegar athugasemdir við að meirihlutinn hefði ekki gefið sér tíma til að bíða eftir niðurstöðu Persónuverndar um kvörtun hennar. 

Meirihlutinn sagði Helgu Björg ekki hafa séð niðurstöður úttektarinnar, Vigdís væri að snúa öllu á haus þrátt fyrir að hafa verið leiðrétt um það sem væri satt og rétt.

Kolbrún Baldursdóttir hjá Flokki fólksins, gerði einnig athugasemdir við skrif Helgu Bjargar á Facebook og spurði hvort það giltu kannski önnur lögmál um embættismenn.