Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Efast um að stjórnarskrárfrumvarpið fái afgreiðslu

11.06.2021 - 19:25
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segist efast um að stjórnarskrárfrumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra fái afgreiðslu fyrir þinglok. 

 

Átta frumvörp voru afgreidd á Alþingi í dag, þar á meðal frumvörp félagsmálaráðherra um aukna þjónustu við börn og barnafjölskyldur. Formenn þingflokka hafa fundað reglulega í dag til að ná sátt um afgreiðslu annarra mála fyrir þinglok en samkomulag um þinglok er ekki í höfn. 

„Nei, ég sé það nú ekki fyrir mér og við höfum nú kannski ekki endilega verið að ræða okkur alveg þangað,“ segir Willum um stjórnarskrárfrumvarpið. „Við höfum viljað klára þau mál sem voru komin út úr nefndum og ná saman um þau og klára þau sjónarmið sem ber í milli. Þetta er auðvitað mikill fjöldi mála og við þurfum að byrja á að ná samkomulagi um þau.“

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, segist verst að horfa á eftir frumvarpi Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra  um afglæpavæðingu neysluskammta:

„Það var dapurt og í raun svik að afglæpavæðingarfrumvarp heilbrigðigsráðherra skuli hafa verið svæft og þar af leiðandi ætluðum við að leggja fram okkar frumvarp. En við fengum bara klárt nei, enda vilja stjórnarliðar líklegast ekki fella aftur mál sem þau styðja opinberlega. Það væri erfitt fyrir þau. En við höfum lagt áherslu á að banna leit að olíu á Íslandi og að opna nefndafundi sem er risastórt gagnsæismál sem snýr að því að hvetja til lýðræðisþátttöku í samfélaginu,“ segir hún.