Búast við fleiri ofbeldismálum með lengri opnunartíma

Mynd: Bjarni Rúnarsson / RÚV
Ætla má að verkefni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu muni taka umtalsverðum breytingum með rýmkuðum afgreiðslutíma skemmtistaða. Tilkynningum um alvarleg ofbeldisbrot í miðborginni fækkaði um 50-60% í kórónuveirufaraldrinum. Þetta segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í Síðdegisútvarpinu í dag.

Breytingar verða á samkomutakmörkunum frá og með þriðjudeginum næstkomandi. Þá lengist opnunartími skemmtistaða og veitingastaða um klukkustund en gestum verður vísað frá í seinasta lagi klukkan eitt. 

Ásgeir vill að umræða verði tekin um framtíð miðborgarinnar með þessar tölur að leiðarljósi. Ekki síður í ljósi þess að ferðamönnum hingað til lands fer fjölgandi. 

„Við gleðjumst yfir því að veiran sé á undanhaldi en það er óskylt mál hvernig við ætlum að stýra opnun skemmtistaða. Nú höfum við tækifæri til að skoða hvernig við viljum hafa miðborg Reykjavíkur til frambúðar,“ segir Ásgeir.