Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Brexit-skuggi yfir G7 fundinum

11.06.2021 - 17:00
Mynd: EPA / EPA
Boris Johnson forsætisráðherra Breta tekur á móti þjóðarleiðtogum hinna G7 landanna um helgina, meðal annars til að sýna styrk Bretlands utan ESB. En á þessum fyrsta fundi forsætisráðherra við Joe Biden Bandaríkjaforseta stelur Brexit-deila Breta við ESB athygli breskra fjölmiðla frá alþjóðamálunum.

Ó vá...“

 Það var létt yfir Boris Johnson forsætisráðherra þegar hann og Carrie kona hans tóku á móti Jill og Joe Biden Bandaríkjaforseta í gær, fyrsti fundur þeirra.

Þetta ,,ó vá,“ Johnsons þegar hann settist niður fyrir framan myndavélarnar með Biden og bauð forsetann velkominn virtist tjá einlæglega yfirþyrmandi atburð.

Leiðtogar kinka kolli til fortíðarinnar

Leiðtogarnir mörkuðu þennan fyrsta fund með því að undirrita endurnýjaðan Atlantshafs-sáttmála. Háleit tilvísun í sáttmála Winston Churchills forsætisráðherrra Breta og Franklin Roosevelts, upphafið að heimskipan friðartíma eftir seinni heimstyrjöldina.

Viðsnúningur Bidens eftir Trump og aðdáun Johnsons á Trump

Um leið og forsetinn lenti í Bretlandi á miðvikudaginn fóru forsetahjónin á fund bandarískra hermanna. Boðskapurinn bergmálaði orð Bidens undanfarið: við viljum gera heiminum það ljóst að Bandaríkin eru aftur mætt til leiks til að takast á við þau mál sem helst varða framtíð okkar.

Minnti þarna á viðsnúninginn eftir embættistíma forverans Donald Trumps. Ýmsir nánustu ráðgjafar Bidens eru sagðir muna hvað Johnson virtist hrifinn af Donald Trump, sem hrósaði Johnson líka ákaft. Væri kallaður breski Trump sem væri hrós því þar væri fólk hrifið af sér. Í ráðgjafahópi Bidens eru margir úr teymi Baracks Obama fyrrum forseta sem muna niðrandi orð Johnsons um Obama.

Farteski Bidens ekki gleymt en hann skapar gott andrúmsloft

Allt þetta er í farteski Bidens sem sjálfur er þekktur fyrir að skapa létt og gott andrúmsloft en vera líka beinskeyttur á fundum fjarri myndavélunum. Myndir svona funda eru oft áhugaverðar. Myndin sem Biden kaus að tísta af sér og gestagjafanum sýnir Biden með handlegginn um axlir Johnsons, svona eins og til vinsamlegrar leiðsagnar.

Brexit: óvænta G7 fundarefnið

Fylgdarlið Johnsons á leiðtogafundi G7 segir sitt um óvænt fundarefni. Fyrir utan utanríkisráðherra er aðeins einn ráðherra í för, David Frost Brexit-ráðherra. Brexit enn óútkljáð deiluefni, öllu heldur Norður-Írlands-samningurinn.

Brexit-leið Breta skapaði fyrirsjáanlegan vanda

Leiðin sem Johnson valdi út úr ESB um áramótin bjó til annan vanda, landamæri milli Norður-Írlands og Bretlandseyja. Talað um pylsudeiluna, snýst um matvælaeftirlit. Bretar hafa reynt á þolrif ESB með því að fara eigin leiðir, án samkomulags við ESB eins og samningurinn þó kveður á um.

Brexit-sinna Bretar saka ESB um ósveigjanleika. Á móti er bent á að Bretar hafi vel vitað hver áhrifin yrðu af Brexit-leiðinni sem þeir völdu en látið kylfu ráða kasti, tækjust á við vandann þegar þar að kæmi. Málið var rætt árangurslaust á fundi Breta og ESB í vikunni.

Macron: ekkert að semja um, bara standa við gerða samninga

Emmanuel Macron Frakklandsforseti, sem verður á leiðtogafundinum, sagði í vikunni að allt væri umsamið, Bretar þyrftu bara að standa við gerða samninga. Charles Michel forseti ráðherraráðs ESB hnykkti á því sama áður en hann fór til Cornwall. Þyrfti að fylgja valdi laganna og auðvitað væri friðarsamkomulagið, kennt við föstudaginn langa, forgangsmál.

Þetta eru einmitt sögð lykilatriðin í huga Bidens. Sagt að hann sjái þetta sem eitt mál: að standa við gerða samninga og hagga ekki friðarsamkomulaginu frá 1998 um Norður-Írland.

Háttsettir Bandaríkjamenn hnykktu á mikilvægi Norður-Írlands fyrir Biden

Fyrir leiðtogafundinn höfðu tveir háttsettir Bandaríkjamenn hnykkt á Norður-Írlandsmálinu. Jake Sullivan öryggisráðgjafi Bidens sagði í viðtali að þó málið væri vissulega milli Breta og ESB væri það líka mikið áhyggjuefni forsetans.

Bandarískur diplómat sagður hafa skammað Brexit-ráðherrann

Dagblaðið Times upplýsti í vikunni að Yael Lempert staðgengill sendiherra Bandaríkjanna í Bretlandi hefði sett rækilega ofan í við Frost Brexit-ráðherra vegna málsins. Sakað Breta um að hleypa af stað illindum með því að ganga gegn samningnum, yrðu að sættast á málamiðlun. Það myndi ekki skaða hagsmuni þeirra í viðskiptasamningum við Bandaríkin, rök Breta fyrir að andæfa lausn ESB.

Allt í góðu samkvæmt Johnson

Eftir 80 mínútna fund þjóðarleiðtoganna í gær var Johnson spurður hvort forsetinn hefði hvatt hann til að semja nú um þetta: Nei, það gerði hann ekki sagði Johnson. Hins vegar ættu Bandríkin, Bretland og Evrópusambandið það sameiginlegt að vilja standa vörð um friðarsamkomulagið.

ESB-leiðtogar gætu vilja nýta viðveru bandamannsins Bidens

Brexitað Bretland vill gjarnan sýna tök sín á stóru heimsmálunum: Kína, Covid, öryggis- og umhverfismálum án Brexitskuggans. Á móti eru leiðtogar ESB-ríkjanna án efa áfram um að nýta viðveru bandamannsins Bidens.