Arnþrúður sýknuð af kröfum Reynis í Landsrétti

11.06.2021 - 15:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri og eigandi Útvarps Sögu, var í dag sýknuð af miskabótakröfum Reynis Traustasonar ritstjóra Mannlífs vegna ummæla sem hún lét falla um hann í útvarpsþætti á Útvarpi Sögu. Tvenn af þremur ummælum Arnþrúðar voru dæmd dauð og ómerk í héraðsdómi en hún áfrýjaði dóminum og í Landsrétti er hún sýknuð með öllu og málskostnaður felldur niður.

„Sjáðu bara eins og […] stjórnarformann Stundarinnar, Reyni Traustason. Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf og fjölskylduhamingju á á samviskunni? Bæði frá því sem ritstjóri DV og ritstjóri Stundarinnar og þá stjórnarformaður Stundarinnar,“ er haft eftir Arnfríði í dóminum. Og: „Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf á á á samviskunni þar sem hann hefur lagt heilu fjölskyldurnar og fólk í rúst út af athugasemdakerfum sem hann lét með lygafréttum sem að eru framleiddar?“. 

Í dóminum segir að samkvæmt stjórnarskrá verði tjáningarfrelsið takmarkað vegna réttinda eða mannorðs annarra, en þær skorður verði að vera nauðsynlegar og samræmast lýðræðishefðum. Ummæli Arnþrúðar teljist gildisdómar frekar en staðhæfingar og þeir séu túlkaðir rýmra en staðhæfingar. Bent er á að Reyni hafi ítrekað verið stefnt fyrir ærumeiðingar og hann hafi með dómi Hérðasdóms Reykjavíkur árið 2013 verið dæmdur til greiðslu miskabóta fyrir ærumeiðandi aðdróttanir. 

„Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að ummælin hafi verið tilefnislaus með öllu eða úr lausu lofti gripin. Að þessu virtu og að því gættu að rétturinn til að tjá ósanngjörn, móðgandi og stuðandi ummæli nýtur einnig verndar 73. gr. stjórnarskrárinnar verður að líta svo á að áfrýjandi hafi með ummælum sínum ekki vegið svo að æru stefnda að það hafi farið út fyrir þau mörk tjáningarfrelsis sem lög og réttarframkvæmd hafa mótað,“ segir í dóminum. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV