Vatnalíf orðið illa úti eftir þurrka í Grenlæk

10.06.2021 - 16:02
Mynd með færslu
 Mynd: Hafrannsóknastofnun
Ástandið í Grenlæk í Landbroti er alvarlegt en í ljós hefur komið að efstu 11 kílómetrar Grenlækjar eru þurrir. Vatnalíf hefur því orðið illa úti og þörungar, smádýr og fiskar drepist á svæðinu.

Frá þessu er greint í færslu á vef Hafrannsóknastofnunar. Þar segir að sérstaklega hafi sjóbirtingastofninn orðið illa úti en tveir til þrír seiðaárgangar hafa drepist. Með tíð og tíma kemur í ljós hver áhrif þurrksins verða á fullorðna sjóbirtinga en talið er að hluti stærri fiska hafi náð að forða sér neðar í lækinn. 

Grenlækur hefur verið frjósamur lindarlækur með ríkulegu lífríki. Sjóbirtingsstofninn þar hefur verið einn sá stærsti á landinu og eru veiðihlunnindi í læknum mjög verðmæt. Nú er farvegur lækjarins að mestu skraufaþurr en í stöku polli var að sjá lifandi fiska sem gera má ráð fyrir að eigi ekki marga daga eftir ólifaða, taki vatn ekki að renna að nýju.

Hafrannsóknastofnun segir að vatnsbúskapur Grenlækjar byggist á því að nægilegt vatn flæði úr Skaftá og út í Eldhraun. Starfræktur er fiskteljari í læknum og má með gögnum frá honum meta hve alvarlegt ástand stofnsins er þegar fiskar fara að skila sér.

Sjá má myndband frá Grenlæk hér að neðan.

Andri Magnús Eysteinsson