Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Væri til í að geta sagt eldgosinu upp

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Hraun fyllir nú botn Meradala. Gosstrókar rjúka ekki lengur upp úr virka gígnum heldur er hraunflæði jafnt. Formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík segist vera orðinn þreyttur á gosinu og spyr hvort ekki sé unnt að segja því upp. 

Lítil hreyfing er nú á hraunflæði í Nátthaga en þaðan er stysta leið hraunsins að Suðurstrandavegi.

Talsverð breyting varð á gosinu klukkan rúmlega fjögur í morgun. Þá hrundi mikið úr gígnum og breyting varð á óróa. Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir að púlsarnir eða gosstrókarnir sem einkennt hafa virknina frá öðrum maí, hafi þá orðið tíðari og minni. Núna eru þeir orðnir svo veikir að hraunið rennur bara jafnt og þétt úr gígnum. Svipaðar breytingar hafi orðið á óróa en þær hafi aðeins staðið yfir í um klukkutíma, en ekki jafn lengi og nú.

Kristín segir ekki vitað hvers vegna hegðun gossins breytist. Vísindamenn fylgist áfram með hvort ný sprunga sé að myndast. Á fundi Vísindaráðs almannavarna í dag var farið yfir aflögunargögn og samkvæmt þeim er engin sprunga í fæðingu. Hraunrennslið er svipað mikið og það var meðan gosstrókarnir voru. Ekkert er hægt að segja til um hversu lengi gosið varir. 

Mikil útlitsbreyting er á Meradölum. Hraunið er búið að fylla dalbotninn. 

Þar sem hraunið hefur breitt svona mikið úr sér, náttmyrkur er ekki um hásumarið og gosstrókarnir eru hættir, sést minna til gossins af gönguleiðinni. 

Komast menn áfram að gosinu, menn sem eru að labba þarna?

„Ja, þú sérð alveg gosið þegar þú ert kominn upp á gönguleið, þú sérð alveg fjallið. En návígið er eiginlega farið. Þú færð ekki þetta návígi sem var,“ segir Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík. 

Ertu orðinn leiður á þessu eldgosi?

„Nei, jú, svona eiginlega. Þetta er ekkert eins spennandi eins og þetta var. Spurning um að segja því upp,“ segir Bogi.

Nóg annað að gera hjá ykkur?

„Já, svona maður vill bara fara í sitt venjulega líf aftur. Þetta er alltaf einhver tímaþjófur á manni. En þetta er allt í lagi. Maður lifir þetta af,“ segir Bogi.