Tækifæri til að sjá okkar bestu leikmenn á morgun

Mynd: Mummi Lú / Mummi Lú

Tækifæri til að sjá okkar bestu leikmenn á morgun

10.06.2021 - 17:02
Kvennalandslið Íslands í fótbolta mætir Írlandi í tveimur vináttuleikjum á Laugardalsvelli á morgun og á þriðjudag. Landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir segist finna fyrir framförum yngri leikmanna liðsins sem komnar eru út í atvinnumennsku.

Leikirnir tveir við Írland eru undirbúningur fyrir undankeppni HM sem hefst í haust. Þá nýtast landsliðsverkefni ársins einnig vel í undirbúningnum fram að EM á Englandi næsta sumar en þar verður Ísland á meðal keppnisþjóða. Íslenska liðið kom síðast saman um miðjan apríl en þá lék Ísland tvo leiki við Ítalíu. Írland er öllu neðar á heimslista FIFA en Ítalía, Írland er í 34. sætinu og Ísland í 17. Því vonast Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, til þess að Ísland verði meira með boltann í leikjunum tveimur.

„Við viljum bara fá áframhaldandi þróun á leik liðsins frá síðasta verkefni. Við höfum verið að fara í gegnum hluti sem við viljum þróa og hvernig við viljum spila. Ég var ánægður með leikina okkar við Ítalíu í vor. Þannig ég vona bara að liðið spili núna enn betur en þar,“ sagði Þorsteinn á blaðamannafundi í dag.

Aldrei hafa fleiri leikmenn liðsins verið í atvinnumennsku erlendis og einmitt núna og segir Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, sem er með reynslumeiri leikmönnum liðsins, að það skipti landsliðið máli að leikmenn séu að spila í sterkum félagsliðum. 

„Mér finnst það geggjað. Mér finnst það líka frábært fyrir yngri kynslóðina sem kemur á eftir þeim að þær séu að setja markið svona hátt og séu að þora því. Þannig mér finnst það gott fyrir ungu stelpurnar sem eru að koma inn og þær eru frábærar fyrirmyndir,“ sagði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir sem er fyrirliði íslenska landsliðsins í fjarveru Söru Bjarkar Gunnarsdóttur sem er þunguð.

Um 1800 áhorfendur verða leyfðir á Laugardalsvelli í leikjunum tveimur en almennir áhorfendur hafa ekki fengið að mæta á völlinn í um eitt og hálft ár.