Stuttmynd um þurrt morgunkorn sigraði Töku 2021

Mynd: Mixtúra / Mixtúra

Stuttmynd um þurrt morgunkorn sigraði Töku 2021

10.06.2021 - 15:17

Höfundar

Stuttmynd um augnablikið þegar þú uppgötvar að það er ekki til nein mjólk út á morgunkornið fékk fyrstu verðlaun á Töku, stuttmyndasamkeppni grunnskóla Reykjavíkurborgar, árið 2021.

Kvikmyndahátíðin Taka hefur verið haldin að vori í 40 ár og í ár voru veitt verðlaun fyrir leiknar stuttmyndir. Samkeppnin fer fram á vegum Mixtúru, upplýsinga- og tæknivers skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur. Myndirnar sem verðlaunaðar voru í ár komu frá unglingum úr þremur skólum, Laugalækjarskóla, Háteigsskóla og Dalsskóla.  

Fyrstu verðlaun fékk stuttmyndin Mjólk eftir Adam, Kára, Orra og Rommel sem eru nemendur í 9. bekk í Laugalækjarskóla. Myndin fjallar um hið þekkta vandamál þegar ekki er til mjólk út á morgunkornið. Í myndinni fylgja áhorfendur ungum dreng og leiðangri hans í mjólkurleit. Í umsögn dómnefndar sagði að myndin væri vel skipulögð og tökurnar „hörkugóðar.“ Myndina Mjólk má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. 

Önnur verðlaun fékk myndin Litla leyndarmálið. Hún er eftir fjórar stelpur, Árelíu Mist, Ísabellu Lind, Önnu Valgerði og Amphaliku, sem eru nemendur í unglingadeild Háteigsskóla. Dómnefndin sagði hugsunina á bak við byrjun myndarinnar skemmtilega og söguþráðinn góðan. Þriðju verðlaun fékk myndin Týndar eftir nemendur í Dalsskóla, þær Evu Þóru, Heiðrúnu, Matthildi Lóu, Söndru Hlín, Þuríði og Þyrí. 

Allar þrjár verðlaunamyndirnar má sjá hér.