Sögufrægt skip á Miðbakka

10.06.2021 - 19:43
Mynd: RÚV/Vilhjálmur Þór Guðmunds / RÚV/Vilhjálmur
Skip sem smíðað var í Þýskalandi á tímum nasistastjórnarinnar en hefur undanfarin 75 ár verið í þjónustu bandarísku strandgæslunnar lagði að bryggju við Miðbakka í gær.

Skipverjar um borð búa þröngt og voru frelsinu fegnir þegar þeir fengu að fara frá borði og skoða land og þjóð. Seglskipið Eagle var smíðað af nasistum árið 1936 en var gert upptækt af Bandaríkjamönnum í stríðslok. Það hefur síðan verið í þjónustu bandarísku strandgæslunnar.

Skipið er 95 metrar að lengd, seglin eru 23 talsins og tignarleg möstrin 15 metra há. Vélin er ellefu hundruð hestöfl en kafteinninn segir þó að skipið sigli hraðar án vélarafls.

Eagle lagði að bryggju á Miðbakka í gær og verður hér fram á þriðjudag. Skipið lagði úr höfn í New London í Connecticut, sigldi til Asoreyja þaðan sem það hélt til Reykjavíkur. Á þriðjudaginn tekur skipið svo stefnuna til Bermúda. 

Áhöfnin sem sigldi skipinu hingað fer reyndar ekki þangað heldur flýgur aftur til Connecticut og ný áhöfn flýgur til Reykjavíkur og siglir skipinu áfram. Skipið er notað sem skólaskip og eru flestir um borð verðandi liðsforingjar strandgæslunnar.

Fréttastofa fékk að líta um borð í dag en skipið verður opið almenningi um helgina, frá 12 til 20 í dag, föstudag og 10 til 18 á sunnudaginn.

Fréttin hefur verið leiðrétt.

Magnús Geir Eyjólfsson