Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Skila þarf bóluefnaskömmtum til Noregs fyrir lok júní

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Ísland þarf að skila þeim 16 þúsund AstraZeneca-skömmtum sem fengnir voru að láni frá Noregi fyrir lok júní „nema samið verði um annað.“ Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu. Frá því í lok maí hafa um 17 þúsund skammtar af bóluefninu komið til landsins. Í þessari viku eiga sjö þúsund manns að fá seinni skammt bóluefnisins

Bóluefni AstraZeneca eða öllu heldur skorturinn á þessu bóluefni hefur valdið heilbrigðisyfirvöldum hér á landi nokkrum vandræðum. 

Ekki er lengur lögð áhersla á að fólk fái fyrri sprautuna af AstraZeneca heldur er fyrst og fremst reynt að fullbólusetja þá sem fengið hafa fyrri sprautuna.

Það gæti reynst erfiðleikum bundið þar sem afhendingaráætlun fyrirtækisins er óljós og breytist mjög oft. Von er á tæplega sjö þúsund skömmtum til landsins í þessum mánuði en engar upplýsingar hafa fengist um hvernig málum verði háttað í næsta mánuði. 

Í lok maí áttu 51 þúsund Íslendingar eftir að fá seinni bóluefnasprautuna af AstraZeneca en þeim fækkaði aðeins í gær þegar til stóð að fullbólusetja sjö þúsund með bóluefninu. 

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur sagt að þeir sem ekki fá seinni sprautuna af AstraZeneca verði sennilega fullbólusettir með öðru bóluefni og þá líklegast Pfizer.

Það flækir síðan málið að Ísland þarf að skila þeim 16 þúsund skömmtum sem fengnir voru að láni frá Noregi í lok apríl. Þeir skammtar voru allir nýttir á sínum tíma og heilbrigðisráðuneytið sagði á sínum tíma að samningurinn myndi styrkja enn frekar bólusetningaáætlun Íslands.

Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir ráðuneytið að skila þurfi skömmtunum fyrir lok júní nema um annað verði samið. Norðmenn hafa ekki notað AstraZeneca í sinni bólusetningaáætlun síðan í mars.

Ráðuneytið segist hafa óskað eftir staðfestum afhendingaráætlunum fram í tímann frá AstraZeneca og skýringum á frávikum frá þeim samningum sem gerðir voru við lyfjafyrirtækið. „Fyrirtækið bar fyrir sig framleiðsluerfiðleika í upphafi og aðrar skýringar hafa ekki fengist.“

Í svari ráðuneytisins kemur einnig fram að Ísland sé ekki aðili að dómsmáli Evrópusambandsins gegn AstraZeneca.