Sjúkratryggingar loka á talþjálfun sjö ára stúlku

10.06.2021 - 13:07
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Sjö ára stúlka á Egilsstöðum sem glímir við málþroskaröskun þarf að hætta í meðferð hjá talmeinafræðingi vegna þess að talmeinafræðingurinn hefur lokið námi. Hann þarf að öðlast tveggja ára starfsreynslu áður en sjúkratryggingar taka í mál að niðurgreiða þjónustu hans. Auðvelt væri að stytta langa biðlista hjá talmeinafræðingum með því að fella á brott kröfu um tveggja ára reynslu, segir Elsa Guðný Björgvinsdóttir móðir stúlkunnar.

„Hér á Austurlandi eru engir talmeinafræðingar sem sinna tilfellum sem Sjúkratryggingar Íslands niðurgreiða. Því höfum við brugðið á það ráð að keyra með dóttur okkar frá Egilsstöðum til Akureyrar til að sækja þessa þjónustu sem hún þarf á að halda. Þar komumst við að hjá stofu og hjá talmeinafræðingi sem vinnur undir handleiðslu reyndari talmeinafræðings. Nú er þessu handleiðslutímabili hjá okkar talmeinafræðingi að ljúka sem þýðir í rauninni að hún er að verða fullgildur talmeinafræðingur en um leið þýðir það að við munum líklega þurfa að hætta að fara til hennar vegna þess að Sjúkratryggingar Íslands gera þá kröfu að talmeinafræðingar séu með tveggja ára starfsreynslu. Það uppfyllir þessi talmeinafræðingur ekki enn þá. Þannig að við erum í þeirri stöðu að hafa sótt þjónustu til talmeinafræðings sem þekkir orðið dóttur okkar vel og hennar þarfir og er fullgildur talmeinafræðingur og hefur tíma fyrir okkur en við megum væntanlega ekki nýta þjónustu hennar.

Og þið þurfið þá að fara aftast í biðröð hjá einhverjum öðrum talmeinafræðingi?

Já, það lítur út fyrir að við þurfum að leita annað og fara á biðlista. Þeir eru gríðarlega langir. Það er mikill skortur á talmeinafræðingum í landinu og hann er meiri eftir því sem fjær dregur höfuðborgarsvæðinu. Þarna virðist vera einhver stífla sem ætti að vera hægur vandi að losa og leysa þannig hluta af vandanum. Við myndum vilja að talmeinafræðingar sem eru útskrifaðir úr háskólanámi fái að sinna börnum sem þurfa á því að halda. Mér skilst að hjá Sjúkratryggingum snúist þetta um gæði þjónustunnar. En mér er fyrirmunað að skilja hvernig það getur verið betri þjónusta við börn að láta þau sitja heima og bíða eftir því að komast að þegar þau gætu mögulega komist miklu fyrr að hjá talmeinafræðingi sem er ef til vill með aðeins minni starfsreynslu en fullgildur engu að síður," segir Elsa Guðný Björgvinsdóttir.