Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Sjö af hverjum tíu hafa komist í tæri við falsfréttir

epa07294580 (FILE) - ILLUSTRATION - A person sits in front of a computer screen in Moers, Germany, 04 January 2019 (reissued 19 Jauary 2019). Media reports on 17 January 2019 state that a record with numerous stolen user data has been published on the Internet. The collection named Collection #1 contained almost 773 million different email addresses, more than 21 million different passwords and more than a billion combinations of credentials, according to a Australian IT security expert. Internet users shall be affected worldwide.  EPA-EFE/SASCHA STEINBACH
 Mynd: EPA
Hlutfall þeirra sem segjast hafa séð falsfréttir eða efast um upplýsingar á netinu er mun hærra á Íslandi en í Noregi. Átta af hverjum tíu Íslendinga sögðust hafa efast um upplýsingar og sjö af hverjum tíu hafa komist í tæri við falsfréttir með einhverjum hætti.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu fjölmiðlanefndar um falsfréttir og upplýsingaóreiðu. Hún byggir á niðurstöðum spurningakönnunar Maskínu sem gerð var í febrúar og mars síðastliðnum.  

Í Noregi voru 13,4% færri sem efuðust um sannleiksgildi upplýsinga heldur en á Íslandi og 25,7% færri sem höfðu rekist á eða fengið sendar falsfréttir. Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri miðlalæsis hjá fjölmiðlanefnd, segir ýmsar ástæður geta verið á þeim mun sem snýr að falsfréttum.

„Mögulega er miðlalæsi meira hér á landi og því erum við frekar að koma auga á falsfréttir. Þá gæti líka verið að skilningur á falsfréttum hér sé annar en í Noregi og því séum við til dæmis að flokka fréttir sem við erum ósammála sem ósannar.“

Skúli segir mögulegt að hugtök skorti á íslensku til aðgreiningar milli falsfrétta sem dreift er vísvitandi, þeim sem dreift er án ásetnings og þegar réttum upplýsingum sé dreift í annarlegum tilgangi.

Langflestir svarenda sögðust hafa rekist á upplýsingaóreiðu eða falsfréttir um kórónuveirufaraldurinn á Facebook, eða 83,1% og tæp 40% á öðrum samfélagsmiðlum.

Þátttakendur kváðust hafa í 22,3% tilvika rekist á slíkar fréttir í ritstýrðum dagblöðum og 4,3% í tölvupósti. Ríflega helmingur kannaði í kjölfarið aðrar heimildir en tæp 24% aðhöfðust ekkert.

Aldur, tekjur og menntun hafa áhrif varðandi viðbrögð við falsfréttum og sannleiksgildi upplýsinga. Skúli segir skýrsluna mikilvæga við greiningu á miðlalæsi.  

„Við sjáum í gegnum alla skýrsluna að yngstu þátttakendurnir, 15 til 17 ára og þeir elstu 60 ára og eldri), eiga í mestum vandræðum með að að koma auga á og bregðast við falsfréttum og upplýsingaóreiðu.“