Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Segir skýrslu um leghálsskimanir verða birta í vikulok

10.06.2021 - 15:55
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Skýrsla Haraldar Briem fyrrverandi sóttvarnalæknis um skimanir fyrir leghálskrabbameini verður ekki birt fyrr en hún hefur verið prófarkalesin og umbroti lokið, segir Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis. Það hafi verið of mikil bjartsýni að ætla að hún yrði tilbúin fyrr en í vikulok.

Þetta kom framí svari hans til Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar og formanns velferðarnefndar. Undir fundarliðnum störf þingsins spurðist hún um skýrsluna sem hafi átt að dreifa í gær. 

„Varðandi leghálsskimanir sem hefur verið beðið eftir, í held ég að verða 12 vikur, eitthvað slíkt. Hún átti sem sagt að koma í gær og það spyrst ekkert til hennar og ég velti fyrir mér hvar umrædd skýrsla er stödd,“ spurði Helga Vala.

Leghálsskimun færðist um áramótin til Heilsugæslunnar frá Krabbameinsfélaginu og leiddi til þess að konur hafa þurft að bíða vikum og mánuðum saman eftir að fá niðurstöður úr sýnatöku og greiningu. Heilbrigðisráðherra fól Haraldi að kanna forsendur fyrir ákvörðun ráðherra, áhrif á aðgengi að sýnum fyrir sérfræðinga innan heilbrigðiskerfisins hérlendis og kostnað svo dæmi séu tekin. Haraldur skilaði skýrslunni til ráðherra á þriðjudag og hafði verið talað um að henni yrði dreift daginn eftir í þinginu, eða í gær. 

„Það var aðeins of bjartsýnt mat að skýrslan næðist á þeim tíma sem hæstvirtur ráðherra heimilaði að upplýsa forseta um því þá var eftir prófarkalestur og umbrot á skýrslunni en það er ekki ætlað að það þyrfti að taka nema eins og tvo daga, þannig að miðað við þau skilaboð sem fyrsti beiðandi skýrslunnar fékk jafnframt, þá snýst þetta um daga, það er að segja hvort þetta komi í dag eða á morgun eða eitthvað svoleiðis,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, fyrr í dag.