Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lagafrumvarp sem tryggja á 48 veiðidaga á strandveiðum

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan - RÚV
Fimm stjórnarþingmenn hafa lagt fram á Alþingi frumvarp til laga sem ætlað er að tryggja strandveiðar í fjörutíu og átta daga í ár. Dugi viðmiðunarafli ársins ekki til þess verði heimilt að færa aflaheimildir til strandveiða úr öðrum kerfum.

Í fyrra gerðist það í fyrsta sinn að strandveiðar voru stöðvaðar áður en tímabiliu lauk þar sem aflaheimildir dugðu ekki til. Þá var mikill þrýsitngur á sjávarútvegsráðherra að tryggja nægan kvóta út tímabilið.

Hæpið að aflaheimildir dugi út sumarið

Líklegt er að þetta sama gerist í ár miðað við aflann það sem af er. Rúmum mánuði frá því veiðar hófust er aflinn um 3.900 tonn, um 400 tonnum meiri en á sama tíma í fyrra. 

Sjávarútvegsráðherra skuli tryggja 48 daga

Það má stunda strandveiðar frá byrjun maí og út ágúst. Samkvæmt reglugerð  um strandveiðar má á hverjum á bát veiða í tólf daga í hverjum mánuði, 48 daga samtals. Nú hefur verið dreift á Alþingi frumvarpi til laga þar sem segir að sjávarútvegsráðherra skuli tryggja 48 daga á strandveiðitímabilinu 2021. Hafi ráðherra fullnýtt heimildir í hinu svokallaða 5,3 prósenta kerfi, þar sem strandveiðin er meðal annars, sé ráðherra heimilt að flytja til strandveiða  allt að 20 prósent af þorskveiðiheimildum almenna byggðakvótakerfisins, auk skel- og rækjuuppbóta fiskveiðiársins 2021–2022. Þá skuli ráðherra tryggja að þetta skerði ekki veiðiheimildir dagróðrabáta á næsta fiskveiðiári.

Ekki hafi náðst samstaða með ráðherra

Fjórir þingmenn Vinstri grænna og einn þingmaður Framsóknarflokks standa að þessu frumvarpi. Lilja Rafney Magnúsdóttir er ein þerra og hún segist, sem formaður atvinnuveganefndar, hafa lagt mikla áherslu á að ná samstöðu með sjávarútvegsráðherra um að tryggja strandveiðar út ágúst með því að auka veiðiheimildir. Það hafi ekki tekist og því sé þetta frumvarp nú lagt fram. Um leið sé leitað eftir stuðningi hjá þinginu í þessu máli á síðustu starfsdögum þess í sumar.