Khurelsuk er nýr forseti Mongólíu

10.06.2021 - 06:09
epa09258851 Ukhnaa Khurelsukh, the presidential candidate of the Mongolian People's Party, gestures as he makes a statement after the preliminary results of the election, in Ulaanbaatar, Mongolia, 09 June 2021 (issued 10 June 2021). Former Mongolian Prime Minister Ukhnaa Khurelsukh won the presidential election.  EPA-EFE/BYAMBA-OCHIR BYAMBASUREN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Khurelsuk Ukhnaa, fyrrverandi forsætisráðherra Mongólíu, vann afgerandi sigur í forsetakosningunum sem þar voru haldnar í gær. Fráfarandi forseti, Battulga Khaltmaa, viðskiptajöfur og fyrrverandi heimsmeistari í mongólskum bardagalistum, var ekki í framboði þar sem stjórnarskrá landsins kveður á um að enginn geti setið lengur en eitt kjörtímabil á forsetastóli.

Khurelsuk lýsti yfir sigri árla fimmtudagsmorguns, þegar fyrstu tölur sýndu að hann hafði fengið um 70 prósent atkvæða. Helsti keppinautur hans, Enkhabat Dangaasuren, hlaut einungis um 20 prósent atkvæða og hefur þegar viðurkennt ósigur sinn. Búist er við formlegum lokatölum síðar í dag.

Karl í krapinu

Khurulsek hefur gjarnan gefið sig út fyrir að vera harður nagli og gert í því að stilla sér upp fyrir ljósmyndara ber að ofan með veiðiriffil í hönd, ekki ósvipað Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Þá fékk hann viðurnefnið „Hnefinn“ þegar myndskeið sem sýndi hann kýla þingmann fór á flug á netinu árið 2012.

Khurelsuk er fyrsti frambjóðandi Þjóðarflokks Mongólíu til að ná kjöri sem forseti síðan 2009. Aðeins 59 prósent kjósenda nýttu atkvæði sitt í kosningunum og hefur kjörsókn aldrei verið minni í Mongólíu frá því að landið varð lýðveldi árið 1992. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV