Hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum í Samráðsgátt

epaselect epa07780048 A hiker makes their way to where Okjoekull glacier will be commemorated after it was lost to climate change, in in west-central Iceland, 18 August 2019. The plaque, in Icelandic and English language, commemorating the Ok (short for Okjoekull) glacier, is named 'A Letter to the Future'. Researchers hope that the plaque, which is the first of its kind in the world, will draw attention to the climate crisis.  EPA-EFE/STR
 Mynd: STR - EPA
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur lokið vinnu við hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum og hún er nú komin í Samráðsgátt stjórnvalda. Horft verður til hvítbókarinnar og athugasemda sem við hana berast við gerð stefnu og mótun áætlunar íslenskra stjórnvalda um aðlögun að loftslagsbreytingum.

Búa Ísland undir að takast á við loftslagsbreytingar

Hvítbókin fjallar um aðlögun Íslands að loftslagsbreytingum, áhrifum þeirra og þeirri náttúruvá sem þeim kann að fylgja. Vinna í kringum aðlögun að loftslagsbreytingum er ekki sú sama og vinnan við að koma í veg fyrir þær. Eins og segir í hvítbókinni snýr aðlögun að því að búa samfélög undir að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga og tekur einnig til aðgerða sem stuðla að vörnum gagnvart þeim. Til dæmis þarf að huga að því hvar byggð er skipulögð og að verja innviði gegn hættu á aukinni tíðni náttúruvár. Ísland hefur ekki sett sér aðlögunarstefnu áður en í Parísarsáttmálanum er kveðið á um mikil aðlögunar. 

Ótal tillögur um markmið stjórnvalda

Í stefnunni sem til stendur að vinna úr hvítbókinni verða tillögur að grunngildum og grunnmarkmiðum stjórnvalda til að vinna út frá vegna loftslagsbreytinga, og markmiða fyrir tiltekna málaflokka, til dæmis varðandi mismunandi þætti samfélagsins þar sem aðlögunar kann að vera þörf. Það er meðal annars í skipulagsmálum, vatni og fráveitumálum, orkumálum, samgöngum, atvinnuvegum, þjóðarhag, lýðheilsu og félagslegum innviðum. 

Meðal þeirra markmiða sem lagt er til að stjórnvöld setji sér eru að kortleggja áhrif loftslagsbreytinga á íslenskt samfélag og þjóðarhag og styrkja innviði eftir því. Einnig segir í hvítbókinni að meta þurfi hagræn og samfélagsleg áhrif breytinga á sjávarútvel og fiskeldi. Kanna með hliðsjón af áhrifum á vinnumarkað að tryggja skilyrði til uppbyggingar nýrra atvinnugreina og tryggja afkomuöryggi og stuðning fyrir þá sem misst gætu vinnuna vegna loftslagsbreytinga. Þá er lagt til að áhrif loftslagsbreytinga á fólksflutninga til landsins og innanlands verði metin. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, telur að aðgerðir til aðlögunar geti skapað samfélaginu sterkari innviði og loftslagsþolnara samfélag en einnig skapað ný störf. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV