Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hreyfing Navalnys úrskurðuð öfgahreyfing

10.06.2021 - 06:28
epa09257277 General view of the Moscow City Court in in Moscow, Russia, 09 June 2021. The court continues the hearing, behind the closed doors, on a lawsuit filed by the Moscow Prosecutor's Office to recognize Anti-Corruption Foundation (FBK) and the headquarters of jailed opposition leader Alexei Navalny as extremist organizations. The court suspended the organizations' activities until the decision on the extremism lawsuit.  EPA-EFE/YURI KOCHETKOV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Dómstóll í Moskvu úrskurðaði í gær að samtök Alexeis Navalnys gegn spillingu, FBK, séu öfgasamtök og fólk sem starfar innan þeirra og með þeim sé öfgafólk. Dómurinn öðlast þegar gildi og hefur það í för með sér að enginn sem vinnur fyrir Navalny, FBK og tengdum aðilum, hvar sem er í Rússlandi, er kjörgengur í þingkosningunum í haust, né nokkrum kosningum öðrum.

Þetta þýðir jafnframt að fólk sem unnið hefur með FBK, stutt samtökin með fjárframlögum og jafnvel þau sem einungis hafa dreift og deilt efni frá samtökunum á samfélagsmiðlum, geta átt á hættu að verða sótt til saka og dæmd til fangelsisvistar.

Á lista með Íslamska ríkinu og Vottum Jehóva

„Dómarar komust að þeirri niðurstöðu að þessi samtök hafa ekki einungis dreift efni sem elur á hatri og fjandskap í garð stjórnvalda, heldur einnig framið ódæðisverk," sagði Alexei Zhafyarov, saksóknari, að úrskurðinum gengnum. Rúmlega 30 hópar og samtök eru á bannlista rússneskra stjórnvalda yfir öfgasamtök. Þeirra á meðal eru Íslamska ríkið, Al Kaída og Vottar Jehóva.

Miðar allt að því að þagga niður gagnrýni

Navalny er talinn áhrifamesti leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Rússlandi. Hann var handtekinn fyrir brot á skilorði þegar hann sneri aftur til Moskvu eftir langa dvöl á þýsku sjúkrahúsi í kjölfar þess að eitrað var fyrir honum í Rússlandi. Hann er enn í fangelsi.

Þingmenn í Dúmunni, neðri deild rússneska þingsins, samþykktu í maí lagafrumvarp sem bannar hverjum þeim sem tilheyra öfgasamtökum að bjóða sig fram í kosningum.

Andstæðingum stjórnarinnar í Kreml þykir augljóst að hvortveggja lagasetningin í maí og dómurinn í gær þjóni þeim tilgangi helstum að þagga niður í öllum gagnrýnisröddum í aðdraganda kosninganna í haust. 

Ekki í fyrsta skipti sem FBK er bannað

Rússneskir dómstólar hafa áður dæmt FBK ólögleg og bannað starfsemi þeirra tímabundið, en þetta er í fyrsta skipti sem þau eru formlega skilgreind sem öfgasamtök samkvæmt dómsúrskurði.

Framkvæmdastjóri samtakanna sá í hvað stefndi og tilkynnti í lok apríl að þau yrðu leyst upp, þótt nokkrar héraðsskirfstofur myndu halda áfram starfsemi sem sjálfstæðar einingar. Ekki er þó víst að það dugi til að koma í veg fyrir ákærur og ofsóknir.