Hádegisfréttir: Ágreiningur um hálendisþjóðgarð

10.06.2021 - 11:52
Of mikill ágreiningur var um stofnun hálendisþjóðgarðs og of lítill tími til að sætta ólík sjónarmið, segir þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Landvernd segir þingið hafa brugðist með því að klára ekki lög um stofnun þjóðgarðsins.

 

Ekkert smit greindist innanlands í gær og enginn hefur greinst utan sóttkvíar síðustu sex daga. Sóttvarnalæknir segir þetta líta vel út og margt bendi til þess að viðnámsþróttur gegn kórónuveirunni sé að verða býsna góður. Hann reiknar með að skila minnisblaði á næstu dögum, jafnvel fyrir helgi.

Foreldrar á Egilsstöðum sem hafa ekið með dóttur sína til talmeinafræðings á Akureyrir þurfa að hætta því þar sem talmeinafræðingurinn hefur útskrifast úr námi. Sjúkratryggingar greiða ekki þjónustu hans og fyrr en hann hefur fengið tveggja ára starfsreynslu. 

Deildarmyrkvi á sólu var í morgun. Útlit var fyrir að hann sæist illa eða ekki, en annað kom á daginn. Sævar Helgi Bragason ristjóri Stjörnufræðivefsins segir að dagurinn hafi verið fullkominn, hann náði deildarmyrkvanum og fékk bólusetningu við COVID sama morguninn.

Hraun gýs ekki lengur upp úr gígnum í Geldingadölum í Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga. Hraunstraumurinn er núna jafn.

Starfsemi samtaka rússneska stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalnys gegn spillingu heldur áfram þrátt fyrir að dómstóll hafi úrskurðað að þau séu öfgasamtök. Evrópusambandið fordæmir niðurstöðuna. 

 

 

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV